Íslenski boltinn

Páll Viðar: Skildum ekki eftir munaðarleysingja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Páll Viðar Gíslason svarar gagnrýni þáttastjórnanda Pepsi-markanna vegna umræðu um ferð hans og Atla Sigurjónssonar til Hollands.

Páll Viðar er þjálfari Þórs og Atli lykilmaður í liðinu. Sá síðarnefndu er nú að æfa til reynslu hjá hollenska liðinu NEC Nijmegen og var ákveðið að Páll Viðar myndi fylgja honum utan.

Þeir voru svo fjarverandi þegar að Þór tapaði, 2-0, fyrir FH á sunnudaginn og var Páll Viðar sérstaklega gagnrýndur fyrir það eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.

„Það er ekki verið að skilja eftir neina munaðarleysingja,“ sagði Páll Viðar í samtali við Vísi í dag. „Við erum þrír þjálfararnir og það voru tveir eftir til að stýra þessum leik. Ég skil því ekki af hverju þetta ætti einhverju máli að skipta.“

„Ég veit nú ekki betur að þjálfarar hafi farið út yfir sumarið og misst úr leik og það af ýmsum ástæðum. Ef menn vilja túlka þetta sem vitleysu eða eitthvað annað verða þeir að eiga það við sjálfa sig.“

Hann segist geta notað ferðina til að læra heilmikið um þjálfarafræðin. „Eigum við ekki að segja að ég sé á lærdómsmiklu námskeiði í efstu deild í Hollandi. Það má kalla þetta vinnuferð,“ sagði Páll Viðar.

„Þessi ferð kom upp með skömmum fyrirvara þar sem að forráðamenn liðsins gengu hart að því að fá Atla út til skoðunar áður en lokað verður fyrir félagaskipti.“

„Ég er einnig framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildar Þórs og er það ekki þannig að framkvæmdarstjórar annarra félaga hafi ekki mátt missa út leik. En ég er bæði framkvæmdarstjóri og þjálfari og því viðbúið að það verði árekstrar.“

„Mér skilst að strákarnir hafi staðið sig vel og haldið jöfnu fram á 83. mínútu. Maður spyr sig hvort þessi gagnrýni hafi komið ef úrslitin hefðu verið jákvæð fyrir okkur. Er það ekki alltaf þannig?“

Páll Viðar bendir á að hann hafi verið gagnrýndur að hvíla leikmenn í leik liðsins gegn Stjörnunni, viku fyrir bikarúrslitin gegn KR. „Á móti kom að ég gat teflt öllum mínum leikmönnum fram í bikarúrslitunum og gátum við gefið KR-ingunum hörkuleik.“

„Það er alltaf hægt að segja hvað ef. Auðvitað eru margar hliðar á þessu. En þetta er ákvörðun sem við tókum og við stöndum við hana.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×