Íslenski boltinn

Guðjón Baldvins: Ógeðslega svekkjandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðjón Baldvinsson þefaði uppi tvo bolta og setti þá í netið gegn Eyjamönnum í kvöld. Það dugði þó ekki til sigurs.

„Nei, það var nóg fyrir eitt stig en þetta var ógeðslega svekkjandi."

Fyrra mark Guðjóns var einkar skondið þegar Albert Sævarsson markvörður Eyjamanna missti boltann klaufalega frá sér.

„Ég bara fylgdi eftir eins og ég geri alltaf. Það sem það skilar er að einn af hverjum 100 boltum dettur. Hann missti hann í lærið á mér," sagði Guðjón.

KR-ingar áttu ekki sinn besta dag í kvöld frekar en Eyjamenn.

„Ekki nógu vel á köflum en inni á milli náðum við ágætis spili. Við eigum mikið inni. Áttum ekki okkar besta daga en náum samt jafntefli gegn ÍBV sem er í öðru sæti. Það er mjög sterkt."

Guðjón veit ekki hvað veldur því að liðið er ekki að spila sinn besta fótbolta um þessar mundir.

„Ég veit ekki hvað veldur. Upp á síðkastið höfum við ekki verið að spila okkar besta leik. Við verðum að vinna okkur út úr því. Hrikalega svekkjandi að missa þetta niður."

Líklegt verður að telja að FH-ingar séu manna sáttastir með jafntefli kvöldsins.

„Já er það ekki oft svona? Toppslagir enda með jafntefli. Það er nóg af leikjum eftir og við verðum að klára þá."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×