Íslenski boltinn

Aron Bjarki: Þetta var klobbi. Það er alveg óþolandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aron Bjarki Jósepsson, miðvörður KR, átti stórleik gegn ÍBV og var skiljanlega svekktur að missa unninn leik niður í jafntefli.

„Já, mjög svekkjandi. Alveg óþolandi. Ég hélt við værum komnir með sigur en svona er þetta."

Aron var beðinn um að lýsa jöfnunarmarki Eyjamanna.

„Það kemur hár bolti yfir Grétar, sóknarmaðurinn (Kjartan Guðjónsson) kemst á undan í boltann og kemur boltanum fyrir í gegnum lappirnar á mér og maðurinn (Aaron Spear) klárar á línunni. Þetta var mjög tæpt."

Knattspyrnumönnum finnst fátt leiðinlegra en að láta klobba sig

„Þetta var klobbi. Það er alveg óþolandi."

Það var ekki að sjá á Aroni Bjarka að hann hefði litla reynslu af stórleikjum sem leiknum í kvöld.

„Já, hvað er þetta. Ég er búinn að spila svo mikið í 2. deildinni að þetta er ekkert mál. Menn eru ískaldir á Húsavík."

Aron Bjarki átti í fullu tré við Tryggva Guðmundsson í leiknum í kvöld.

„Gamli? Mér fannst ég bara halda honum vel niðri allan leikinn. Hann gerði ekki neitt nema þetta mark sem hann skoraði. Það telur náttúrulega, þetta mark."

Aron Bjarki telur úrslitin betri fyrir KR-inga en Eyjamenn.

„Við megum betur við þessu en þeir, en við ætluðum að vinna þennan leik. Sérstaklega þegar við vorum komnir í 2-1 og bara uppbótartími eftir. Þá eigum við bara að klára þetta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×