Lífið

Kallaður blóðgaurinn á götu

Tónlistarmaðurinn Davíð Berndsen syngur eitt vinsælasta lag landsins, Úlfur úlfur, ásamt Bubba Morthens. „Já, lagið er komið á toppinn á vinsældalista Rásar 2. En það er alls ekki vegna þess að ég er starfsmaður RÚV. Ég hef verið í sumarfríi undanfarið og það er engin spilling í gangi," segir tónlistar- og hljóðmaðurinn Davíð Berndsen og hlær þegar hann er spurður út í vinsældir lagsins Úlfur úlfur, sem hefur hljómað ótt og títt á öldum ljósvakans síðan það kom út í byrjun mánaðarins.

Davíð, sem alla jafna gengur undir listamannsnafninu Berndsen, flytur lagið ásamt sjálfum Bubba Morthens. Hann segir tildrög samstarfsins hafa verið stöðugt grín Ólafs Páls Gunnarssonar, samstarfsmanns tónlistarmannanna tveggja á Rás 2.

„Ég starfa sem hljóðmaður á Rás 2 og vann mikið með Bubba í Færibandsþáttunum hans. Óli Palli var alltaf að djóka með að við þyrftum að gera lag saman, en ég tók það aldrei alvarlega fyrr en Bubbi fór að taka undir þessar óskir. Þá var ég að sjálfsögðu til í tuskið. Upphaflega hugmyndin mín var sú að texti lagsins gengi út á að ég væri ungur drengur að biðja Bubba, sjálfan kónginn, um ráð. Í viðlaginu syngi hann eitthvað á borð við „Hlustaðu á mig, ég er kóngurinn" og í myndbandinu yrðum við að boxa. Ég í bleikum samfestingi og hann að kýla mig í klessu. Bubbi var ekki nógu hrifinn af þeirri hugmynd og sagði: „Nei, nei, Davíð, ég er ekki kóngur. Ég er úlfur." Þannig datt mér titillinn í hug og hitt fylgdi í kjölfarið, með góðri hjálp frá Bubba," útskýrir Davíð.

Kallaður blóðgaurinn

Lagið vinsæla með Berndsen og Bubba flokkast undir melódískt og hljóðgervladrifið eitíspopp eins og Davíðs hefur verið siður frá því að hann vakti fyrst verulega athygli sumarið 2009 með stuðlaginu Supertime. Fleiri vinsæl lög fylgdu í kjölfarið á borð við Young Boy og Lover in the Dark, sem er titillag einu sólóskífu hans til þessa sem kom út fyrir jólin 2009.

Ekki minni athygli vöktu tónlistarmyndböndin sem gerð voru við þessi lög, en þau þóttu sérlega frumleg og vel heppnuð þrátt fyrir að hafa verið gerð fyrir lítið fé. Einkum ferðaðist myndbandið við fyrstnefnda lagið, Supertime, víða um veraldarvefinn en í því var áherslan lögð á bílslys með tilheyrandi blóði og óhugnaði.

Davíð segir það hafa verið ákveðna áhættu að senda frá sér svo umdeilt myndband, en sú áhætta hafi gengið upp. "Ég var kallaður "blóðgaurinn" af ókunnugu fólki úti á götu, sem mér fannst hálf leiðinlegt, en svo kom bara í ljós að svona umtal er ótrúlega góð leið til að vekja athygli á því sem þú ert að gera. Enn þann dag í dag skoða fimm hundruð manns á dag myndbandið á YouTube, fólk frá Kenía, Indlandi og hvaðanæva að, og það er gaman að því."

Úlfur úlfur er ekki fyrsta lag Davíðs sem kemst á topp vinsældalista því á síðasta ári náði hann þeim áfanga ásamt söngkonunni Þórunni Antoníu Magnúsdóttir með laginu For Your Love. Þau hafa undanfarið unnið saman að gerð breiðskífu sem kemur út undir nafni Þórunnar Antoníu í haust.

„Ég hef góða tilfinningu fyrir þeirri plötu. Þórunn Antonía er vel tengd í tónlistarbransanum og við komum líklega til með að fylgja plötunni eftir með tónleikahaldi erlendis. Það er líka fyndinn munur á okkur tveimur, hún svona ljóshærð og sæt á meðan ég er rauðhærður, með skegg og dálítið þybbinn. En þetta virkar," segir Davíð.

Mikill Vesturbæingur í sér

Davíð fæddist í miðjum blóma tónlistartímabilsins sem hann dáir svo mjög, árið 1985, á Akureyri en fluttist nokkurra mánaða gamall í Vesturbæ Reykjavíkur þar sem hann hefur að mestu búið síðan. Hann gengst fúslega við því að vera mikill Vesturbæingur í sér og þarafleiðandi harður KR-ingur eins og gengur og gerist á þeim slóðum.

„Það er í rauninni alveg bráðfyndið hvað Vesturbæingar eru brjálaðir KR-ingar. Þegar ég bjó á Lynghaga átti ég nágranna sem sá mig eitt sinn spranga um hverfið í Inter Milan-treyju. Daginn eftir bankaði hann upp á hjá mér, rétti mér KR-treyju sem hann hafði keypt og skipaði mér að klæðast henni hér eftir. Ég hlýddi honum auðvitað," rifjar Davíð upp.

Hann æfði körfuknattleik með KR um tíma en smitaðist af tónlistarbakteríunni um sextán ára aldurinn. Til að byrja með hreifst hann aðallega af gítarrokki sveita á borð við Guns?n Roses og Black Sabbath, en síðar fór hann að veita eitís-tónlistinni meiri athygli.

Dálæti sitt á nýrómantík níunda áratugarins rekur Davíð bæði til laga úr hjólabrettakvikmyndum, sem hann tók upp á kassettur og spilaði í vasadiskói meðan hann brettaðist um götur bæjarins, en líka til tónlistarsmekks föður síns.

„Pabbi hlustaði eingöngu á eitís-tónlist, Duran Duran, OMD, Sálina, Greifana og fleiri bönd, og gerði það meira að segja ennþá árið 1995," segir hann og skellir upp úr. „Ég er sérstaklega hrifinn af OMD. Einhverjir hafa líkt röddinni minni við söngvara þeirrar sveitar, Andy McCluskey, sem er ekki verra."

Þegar Davíð kynntist Sveinbirni Thorarensen vini sínum, sem einnig er þekktur sem Hermigervill, í námi til hljóðmanns í Hollandi komust þeir að því að ekki einasta héldu þeir báðir mikið upp á eitís-tónlist heldur heita mæður þeirra beggja því viðeigandi nafni Eydís. Berndsen og Hermigervill hafa unnið mikið og náið saman síðan.

Þýska stálið í skipulagningunni

Eins og áður sagði hefur Davíð haft í nægu í snúast að undanförnu í samstarfi við aðra listamenn. Ýmislegt stendur þó til varðandi sólóferilinn, þar sem platan Lover in the Dark frá 2009 verður gefin út á ný og dreift um Evrópu í nóvemb-er með tilheyrandi tónleikahaldi í Hollandi, Frakklandi, Bretlandi og fleiri löndum.

„Ég hef aldrei spilað í útlöndum áður. Við höfum oft fengið tilboð um tónleika en það er erfitt og dýrt að ráðast í slíkt, sérstaklega þegar ég var með sjö manna band með mér. Núna erum við fjórir og því allt viðráðanlegra," segir Davíð og bætir við að hann hafi nýlega skrifað undir samning við þýska umboðsmenn sem einnig hafa íslensku rokksveitina Who Knew á sínum snærum.

„Ég veit að við komum til með að hita upp fyrir Who Knew á einhverjum tónleikum, en annars sjá umboðsmennirnir alveg um alla skipulagningu. Fátt er betra en þýska stálið í þeim efnum. Þeir

hafa ýmsar skemmtilegar hugmyndir til að vekja athygli á okkur. Til dæmis að við dúkkum upp á lestarstöðvum klukkan þrjú á næturnar og höldum tónleika og fleira í þeim dúr," segir Davíð.

„Eðlilega vilja umboðsmennirnir núna leggja höfuðáherslu á að kynna Lover in the Dark, en mig klæjar í fingurna að vinna að nýju efni og vona að ég geti gefið út nýja plötu hérna heima á næsta ári. Ég er kominn með helling af flottum lögum og það verður heljarinnar eitíssprengja."

Vill baka með gömlum konum

Tónlistarmaðurinn hyggur þó á landvinninga í fleiri en einum skilningi því senn flyst hann á suðrænar slóðir, til borgarinnar Porto í Portúgal, þar sem kærastan hans mun leggja stund á nám í arkitektúr í eitt ár.

„Ég hlakka til að prófa eitthvað nýtt og þarf að "step up my portúgalska," eins og maðurinn sagði. Ef allt klikkar með músíkina fer ég bara í húsmæðraskóla í Portúgal. Mig langar voðalega mikið að baka og elda með gömlum konum. Það er einhver stemning í því sem mér líkar. Ég var að horfa á þátt af Desperate Housewives um daginn og hugsaði þá með mér að ég þyrfti að læra þetta almennilega. Ég fann uppskriftabók hjá mömmu og finnst mjög spennandi að fræðast um matarsóda, hvort það sé salt í súkkulaði og slíkt," segir Davíð.

Hann á sér einnig þann draum að semja framlag síns tilvonandi dvalarstaðar í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. „Portúgölsku lögin í Eurovision hafa lengi verið mjög léleg. Ég sé fyrir mér að finna rétta fólkið í bransanum úti og mala keppnina með svaka hljóðgervlapoppi. Ég sendi reyndar Supertime í undankeppnina hérna heima um árið en það komst ekki áfram. Hefði ég fengið Pál Óskar til að syngja það hefði það eflaust getað náð langt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.