Lífið

Ágústa Eva og Valgerður Guðna á stórtónleikum

Ágústa Eva og Valgerður. Myndir/Stefán Karlsson
Ágústa Eva og Valgerður. Myndir/Stefán Karlsson
Söngkonurnar Valgerður Guðnadóttir og Ágústa Eva Erlendsdóttir verða einsöngvarar á tónleikum í Langholtskirkju á sunnudag og mánudag.

Þá efna Samkór Kópavogs og Kór Menntaskólans við Sund til stórtónleika í samvinnu við kennara og lengra komna nemendur úr tónlistarskólum á höfuðborgarsvæðinu. Fram koma um 100 söngvarar og sinfóníuhljómsveit með 60 hljóðfæraleikurum en flutt verður verkið Stabat Mater eftir Karl Jenkins.

Stabat Mater er 13. aldar kirkjutexti sem fjallar um þjáningu Maríu meyjar, móður Krists, er hún fylgist með krossfestingu og dauða sonar síns. Eins og efni textans gefur tilefni til er Stabat Mater eftir Karl Jenkins lengst af hægferðugt og íhugult tónverk en það rís á nokkrum stöðum og eru þá raddir, strengir, lúðrar, trumbur og málmgjöll þanin til hins ýtrasta.

Í tónlistinni gætir víða austrænna áhrifa, meðal annars í arabískum söngspuna sem fluttur verður af Ágústu Evu Erlendsdóttur. Þá er einn kafli verksins harmljóð við texta Carol Bennet, eiginkonu tónskáldsins, og fluttur af Valgerði Guðnadóttur.

Samkór Kópavogs.
Hjörleifur Valsson vermir sæti konsertmeistara og stjórnandi á tónleikunum verður Björn Thorarensen. Þetta er í þriðja sinn á jafnmörgum árum sem Samkór Kópavogs í samvinnu við aðra tónlistarflytjendur frumflytur stórt kórverk eftir Karl Jenkins. Í fyrra var það Vopnaði maðurinn: Friðarmessa og árið þar áður Requiem/Sálumessa.

Tónleikarnir verða í Langholtskirkju 17. og 18. apríl næstkomandi. Miðasala er á samkor.is en á tónleikana kostar þrjú þúsund krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.