Enski boltinn

Lukaku fer líklega til Englands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Herman van Holsbeeck, framkvæmdarstjóri belgíska félagsins Anderlecht, telur líklegt að hinn bráðefnilegi Romelu Lukaku muni næst spila í ensku úrvalsdeildinni.

Lukaku er aðeins sautján ára gamall en þykir einn allra efnilegasti leikmaður Evrópu. Hann hefur verið orðaður við lið á Spáni, Ítalíu og Þýskalandi en ensk félög hafa einnig haft auga á honum.

Van Holsbeeck hefur greint frá því að enskt félag lagði fram tilboð í Lukako í janúar síðastliðnum.

„Lið eins og Chelsea, Tottenham og Liverpool hafa áhuga,“ sagði hann við hollenska fjölmiðla. „Ef að liðin tvö frá Manchester blanda sér einnig í þessa baráttu gæti hún orðið athyglisverð.“

„Við vitum af áhuga Real Madrid á honum en mér finnst líklegt að hann muni frekar fara til Englands. Kaupverðið verður líklega um 30 milljónir evra.“

Sjálfur er Lukaku sagður vera mikill stuðningsmaður Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×