Innlent

Segja annað gilda um starfið á Íslandi

Félagsskapurinn sem festi kaup á Ýmishúsinu undir starfsemi Menningarseturs múslima á Íslandi er tengdur fyrirhugaðri mosku í Tromsö.
Félagsskapurinn sem festi kaup á Ýmishúsinu undir starfsemi Menningarseturs múslima á Íslandi er tengdur fyrirhugaðri mosku í Tromsö.

Sömu aðilar standa á bak við sjálfseignarstofnunina Islamic Endowment Center in Iceland, sem festi nýlega kaup á Ýmishúsinu við Skógarhlíð, og verkefni um að byggja mosku í Tromsö í Noregi.

Hætt var við bygginguna í Tromsö þar sem norsk stjórnvöld gátu ekki uppfyllt kröfur fjárfesta frá Sádi-Arabíu, en talsmaður Menningar­seturs múslima á Íslandi segir málum ólíkt farið hér á landi.

Tarjei Skirbekk, pólitískur ráðgjafi í norska utanríkisráðuneytinu, sagði í samtali við Fréttablaðið að málið í Tromsö hefði í raun strandað á fjárfestunum.

„Sádi-arabísku fjárfestarnir þurftu skriflega yfirlýsingu frá norskum stjórnvöldum um að moskan, sem reist yrði fyrir fé frá Sádi-Arabíu, fengi að starfa í samræmi við sádi-arabískar reglur. Það eru sádi-arabísk stjórnvöld sem setja fjárfestunum þetta skilyrði ef þeir hyggjast senda fé úr landi til að fjárfesta í moskum í öðrum ríkjum.“

Yfirlýsingu af því tagi vildu norsk stjórnvöld ekki gefa út, og segir Skirbekk sádi-arabísku fjárfestana þess vegna hafa hætt við. „Það er almenn regla hjá okkur að gefa ekki út slík leyfi,“ segir Skirbekk.

Hann tekur þó fram að norsk stjórnvöld eigi í góðu sambandi við stjórnvöld í Sádi-Arabíu og Espen Barth Eiden aðstoðarutanríkisráðherra hafi tekið málið upp við þau þegar hann átti erindi til Sádi-Arabíu. Þarlend stjórnvöld sýni afstöðu norskra stjórnvalda fullan skilning.

Fréttablaðið hafði samband við Hussein Aldaoudi, sem er einn af aðstandendum Islamic Endowment Center in Iceland og fleiri verkefna á Norðurlöndum, en hann vildi ekki tjá sig um málið.

Karim Askari, varaformaður stjórnar Menningarseturs múslima á Íslandi, sem verður með starfsemi í Ýmishúsinu, sagði í samtali við Fréttablaðið að fjármagn til kaupa á húsnæðinu kæmi úr styrktarsjóði óháð sádi-arabískum stjórnvöldum.

„Við þiggjum ekki fé frá Sádi-Arabíu. Féð kemur úr styrktarsjóðum sem eru notaðir til að hjálpa fátækum eða í verkefni eins og að byggja skóla eða moskur.“

Karim segir að starf Menningarseturs og Islamic Endowment Center in Iceland sé unnið í samvinnu við stjórnvöld og í raun sé ekkert að vanbúnaði að hefja starfsemi.

Fréttablaðið sendi fyrirspurn um málið til dómsmála- og mannréttinda­ráðuneytis en fékk ekki svör áður en blaðið fór í prentun.

thorgils@frettabladid.is

gudsteinn@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.