Enski boltinn

Capello: Það var rétt hjá Ferguson að láta Rooney spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Mynd/AFP
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englendinga, var ekkert ósáttur við þá ákvörðun Alex Ferguson, stjóra Manchester United, að nota Wayne Rooney í seinni leiknum á móti Bayern Munchen í Meistaradeildinni aðeins viku eftir að hann meiddist illa á ökkla.

Wayne Rooney byrjaði inn á í leiknum en fór að haltra tuttugu mínútna leik eftir að hafa fengið högg á sama ökkla og var loksins tekinn útaf í upphafi seinni hálfleiks. Rooney á samt að geta klárað tímabilið með Manchester United og vera klár í landsleiki á móti Mexíkó og Japan.

„Ég skil Ferguson fullkomlega því ég veit hversu mikilvægur andlega Rooney er fyrir United-liðið," sagði Fabio Capello í viðtali við ítalska blaðið Gazzetta dello Sport.

„Ég tel að þetta hafi ekki verið nein óþarfa áhætta. Hann var búinn að fara í gegnum prófanir, þetta var ekki alvarlegt og hann var klár til að spila leikinn. Það var rétt hjá Ferguson að láta Rooney spila," sagði Capello.

„Þetta er viðkvæmur tími á tímabilinu og það getur allt gerst hvort sem ég krossleggi fingur eða ekki. Það eina sem ég óska mér er að meiddu mennirnir verði búnir að ná sér í tíma," sagði Capello.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×