Innlent

Skaftá vex enn í byggð

Rennsli Skaftár inni á hálendi virðist hafa náð hámarki um hádegisbil í gær við Sveinstind á móts við Langasjó. Þaðan á Skaftá eftir að renna um 50 kílómetra niður á láglendi og rennslismælar bæði við Kirkjubæjarklaustur og við Ása hjá Eldvatni hafa sýnt stöðugan vöxt í allan morgun.

Snorri Zóphóníasson hjá vatnamælingum Veðurstofu telur þó að þar sé hlaupið við það að ná hámarki. Hann segir að áhrifa þess muni gæta næstu daga í Eldhrauni þar sem vatnið heldur áfram að safnast upp og gæti svo farið að þar flæddi upp á hringveginn síðar í vikunni.

Vegna hlaupsins hafa vegir lokast á tveimur stöðum, við Skaftárdal og Skál. Þá flæðir upp á veginn á Fjallabaksleið nyrðri neðan Hólaskjóls en aðeins yfir annað hjólfarið, að sögn vegagerðarmanna, sem skoðuðu veginn þar í morgun og segja þeir að hann sé fær.

Hlaupið nú, sem hófst í fyrradag, er talið koma úr eystri katli Skaftárjökuls, en það kom ofan í annað hlaup, sem hófst viku fyrr, og var talið ættað úr vestri katlinum. Vatnamælingar búast við að útbreiðsla jökulvatnsins utan farvega verði með mesta móti ef ekki sú mesta sem orðið hefur í 55 ára sögu Skaftárhlaupa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×