Lífið

Prófessorinn er mikill krakki

Bragi Valdimar Skúlason, Prófessorinn og Kiddi úr Hjálmum sem unnu saman að Diskóeyjunni.
Bragi Valdimar Skúlason, Prófessorinn og Kiddi úr Hjálmum sem unnu saman að Diskóeyjunni.
Lagið Það geta ekki allir verið gordjöss með Páli Óskari situr í efsta sæti bæði Lagalistans og vinsældalista Rásar 2. Það hefur setið samanlagt í fimm vikur í efsta sæti yfir vinsælustu og mest spiluðu lög landsins. Lagið er á plötunni Diskóeyjan sem er nýkomin út. Á henni kennir Prófessorinn Óttarr Proppé börnum og öðrum tilheyrendum góða siði í fágunarskóla sínum við Diskóflóa.

„Þetta er spurning um að vera ekki feiminn við að vera í stuði,“ segir Óttarr um Prófessorinn. Diskóeyjan er rokkópera eftir Braga Valdirmar Skúlason. Honum til halds og trausts við verkefnið voru Óttarr og Kiddi úr Hjálmum og fengu þeir til liðs við sig landskunna poppara, þar á meðal Sigtrygg Baldursson og Pál Óskar.

„Prófessorinn er gömul týpa sem ég var að dunda við fyrir fullorðna,“ segir Óttarr og á þar við hljómsveitina Funkstrasse sem var virkust í kringum 1995. „Það var voða gaman en ekki verkefni sem greip mann svona gjörsamlega. Þegar honum var snúið upp á leikinn og æskufjörið kom sannleikurinn í ljós. Þá lifnaði hann almennilega við. Prófessorinn er í eðli sínu svo mikill krakki, eiginlega eins og Andrés Önd. Hann er ekki alveg fullorðinn og þarf heldur ekkert að vera fullorðinn.“

Óttarr viðurkennir að sumum krökkum finnist Prófessorinn, sem er einnig áberandi í rokksveitinni Dr. Spock, skrítinn. „Við höfum lent í því að krakkar hafa verið aðeins hikandi. Hann er líka svo ofsalega langur því hann er á svo háum hælum. En þegar hann beygir sig niður og fer að spjalla eru flestir krakkar að fatta hann.“

Memfismafían mun ásamt Prófessornum og föruneyti kynna Diskóeyjuna á næstu vikum og verður meðal annars efnt til tónleika í Hofi á Akureyri 28. nóvember. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.