Innlent

Íhugar að játa til að spara skattfé

Frá handtökunum á Alþingi. Athugið að Kolbeinn er ekki á myndinni. Mynd/ Arnþór Birkisson
Frá handtökunum á Alþingi. Athugið að Kolbeinn er ekki á myndinni. Mynd/ Arnþór Birkisson

Líftæknifræðingurinn Kolbeinn Aðalsteinsson er einn af níu sem hafa verið ákærðir fyrir árás á Alþingi en málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Sjálfur er Kolbeinn búsettur á Siglufirði og frétti fyrst af því að hann væri ákærður þegar hann las fréttirnar á vefnum eftir vinnu í kvöld.

„Ég var upptekinn í vinnunni þegar ég var truflaður af símtölum. Þá var mér sagt frá þessu. Svo fór ég á netið og sá þetta fyrst," segir Kolbeinn sem hefur ekki séð þau ákæruatriði sem lúta að honum.

Kolbeinn var í mastersnámi í líftækni í Háskóla Íslands þegar hann ákvað í desember 2008 að fara niður á Alþingi að mótmæla. Hann var síðan handtekinn fyrir að óhlýðnast lögreglunni. Nú hefur hann verið ákærður fyrir að ráðast á Alþingi.

„Þetta er bara spennandi," svaraði Kolbeinn spurður hvað honum fyndist um það að vera ákærður vegna mótmæla sinna. Spurður hvort hann muni lýsa sig sekan í málinu svarar hann:

„Það kemur vel til greina. Það er skárra en að eyða tíma dómstólanna og skattfé í þessa vitleysu."

Kolbeini þykir tíma dómstólanna betur varið í að sækja þá til saka sem komu að hruninu með beinum hætti.

Kolbeinn og félagar hafa verið ákærðir fyrir 100 grein hegningarlaganna. Þeir eru semsagt ákærðir fyrir árás gegn Alþingi. Sú lagagrein hefur ekki verið notuð síðan árið 1949, þegar óeirðirnar brutust út á Austurvelli eftir að Ísland gekk í Nató.

Kolbeinn mótmælir því að um árás á Alþingi hafi verið að ræða, hvað þá að öryggi þingsins hafi verið ógnað. Hann segir að mótmælendur séu í mesta lagi sekir um að trufla störf Alþingis frá áheyrandapöllunum.

Kolbeinn segir að lokum að ákæran hafi komið honum verulega á óvart: „Við mótmæltum til þess að knýja fram breytingar. Þegar ætlunarverkið tókst, þá er maður ákærður fyrir það."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×