Innlent

Ríkiskaup láta hefð ráða frekar en lestur

Forstöðumaður Ríkiskaupa segir að í haust ætli stofnunin að draga almennt úr auglýsingum í prentmiðlum og auglýsa frekar á Netinu. Fréttablaðið/Anton
Forstöðumaður Ríkiskaupa segir að í haust ætli stofnunin að draga almennt úr auglýsingum í prentmiðlum og auglýsa frekar á Netinu. Fréttablaðið/Anton
Mikill meirihluti dagblaðaauglýsinga frá mörgum opinberum stofnunum birtist í Morgunblaðinu. Má þar nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íbúðalánasjóð og Ríkiskaup.

Fréttablaðið mælist 180 prósenta meiri lestur en Morgunblaðið á höfuðborgarsvæðinu. 77,5 prósent fólks á aldrinum 18 til 49 ára lesa Fréttablaðið á meðan Morgunblaðið er með 27,7 prósenta hlutfall.

Ríkiskaup er opinber stofnun sem heyrir undir fjármálaráðuneytið og sér um innkaup og útboð stofnana sem reknar eru fyrir reikning ríkissjóðs. Stofnunin birtir 82 prósent af prentuðum auglýsingum sínum í Morgunblaðinu.

Guðmundur Hannesson, forstöðumaður Ríkiskaupa, segir sögulegar ástæður liggja að baki.

„Við vorum byrjuð að auglýsa í Morgunblaðinu áður en Fréttablaðið varð til. Við höfum verið að bögglast með þetta í gegnum tíðina – við sjáum alveg lesturinn í Fréttablaðinu,“ segir hann. „Við vinnum á mjög íhaldssömum markaði og það er ákveðinn vettvangur að okkar mati.“ Guðmundur segir bjóðendahóp Ríkiskaupa eiga að geta gengið að útboðsauglýsingum vísum í Sunnudagsmogganum, eins og hefð hefur verið fyrir, en málin muni taka breytingum með haustinu.

„Við ætlum að færa okkur inn á vefinn og draga almennt úr prentuðum auglýsingum. Ef við viljum tryggja útbreiðslu útboða þá auglýsum við í Fréttablaðinu og þeir sem við vinnum fyrir vilja það líka frekar,“ segir Guðmundur. „Maður myndi halda að fyrirtæki ættu að setja auglýsingarnar sínar þar sem þær eru mest lesnar, en við erum íhaldssöm stofnun.“

Íbúðalánasjóður birtir 66 prósent sinna auglýsinga í Morgun­blaðinu og segir Ásta H. Bragadóttir, starfandi framkvæmdastjóri, segir engar ástæður liggja að baki mismuninum.

„Við erum ekki með neina yfirlýsta stefnu í þessum málum. Ég veit ekki betur en þetta eigi að vera jöfn dreifing,“ segir hún.

Þórdís Sigurþórsdóttir hjá auglýsinga- og markaðsmáladeild Íbúðalánasjóðs segir Morgunblaðið hringja meira út og bjóða auglýsingar á síðustu stundu og að það sé megin ástæða hlutfalls birtinganna. sunna@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×