Lífið

30 erlend forlög bítast um bók Óskars

Erlendir bókaútgefendur bítast um fyrstu bók Óskars Hrafns Þorvaldssonar.
Erlendir bókaútgefendur bítast um fyrstu bók Óskars Hrafns Þorvaldssonar.
„Ég held að það hljóti að vera einsdæmi að svo margir sýni frumraun íslensks höfundar slíkan áhuga,“ segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins.

Fyrsta bók blaðamannsins Óskars Hrafns Þorvaldssonar, Martröð millanna, vakti mikinn áhuga á bókamessunni í Frankfurt á dögunum. Svo mikinn að Egill og hans fólk hafði vart undan að svara fyrirspurnum áhugasamra bókaforlaga sem vilja gefa bókina út. „Alls eru þetta þrjátíu erlendir útgefendur sem eru með bókina undir smásjánni. Það stefnir í stórt og mikið uppboð á Martröðinni,“ segir Egill Örn.

Egill segir að fyrst og fremst sé um útgefendur í Evrópu að ræða. „Þjóðverjar hafa mikinn áhuga enda verður Ísland í fókuspunkti á bókamessunni í Frankfurt á næsta ári. Það hjálpar allri réttindasölu,“ segir Egill.

Af hverju eru erlend forlög svona spennt fyrir bók Óskars?

„Erlendir útgefendur hafa áhuga á því sem gerðist á Íslandi og hafa verið að leita að krimma sem fjallar um þetta tímabil. Bók Óskars fjallar um lifnað útrásarvíkinga og fleira áhugavert og virðist vera það sem margir þeirra voru að leita að.“

„Það er frábært að heyra af þessum áhuga, sérstaklega miðað við að maður er alveg óþekktur höfundur,“ sagði Óskar Hrafn í samtali við Fréttablaðið. „Ég er nú ekkert að fara að opna kampavínið strax, enn sem komið er þá er þetta bara áhugi. En ofboðslega ánægjulegur áhugi.“ - hdm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.