Enski boltinn

West Ham og Everton skildu jöfn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

West Ham missti af tækifæri til að komast úr fallsæti í ensku úrvalsdeildinni er liðið mátti sætta sig við 1-1 jafntefli gegn Everton í kvöld.

West Ham komst yfir á 16. mínútu leiksins þegar Tony Hibbert, varnarmaður Everton, setti boltann í eigið net eftir bakfallsspyrnu Radoslav Kovac.

Seamus Coleman jafnaði svo metin fyrir Everton undir lok fyrri hálfleiks með skoti af stuttu færi eftir laglega sendingu Tim Cahill.

Ekkert var skorað í síðari hálfleik og þar við sat. West Ham hefur nú ekki tapað í þremur leikjum í röð þrátt fyrir að alls tíu leikmenn hafa verið á sjúkralistanum hjá liðinu að undanförnu.

Everton náði ekki að fylgja eftir góðum 2-1 sigri á Manchester City í síðustu viku en það var fyrsti sigurleikur liðsins síðan í lok október.

Everton er í ellefta sæti deildarinnar með 22 stig en West Ham er í nítjánda sæti með sautján.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×