Lífið

Ekki bara saga um Ragga

Söngvarinn Raggi Bjarna stillir sér upp við glæsilegan fornbíl og við stýrið situr leikstjórinn Árni Sveinsson. Raggi er ánægður með mynd Árna, segir hana mjög vel heppnaða. fréttablaðið/anton
Söngvarinn Raggi Bjarna stillir sér upp við glæsilegan fornbíl og við stýrið situr leikstjórinn Árni Sveinsson. Raggi er ánægður með mynd Árna, segir hana mjög vel heppnaða. fréttablaðið/anton
Heimildarmyndin Með hangandi hendi er á leiðinni í bíó. Ekki bara saga um Ragga Bjarna heldur einnig um skemmtanalíf Íslendinga, að sögn leikstjórans Árna Sveinssonar.

Í kvikmyndinni Með hangandi hendi fylgir leikstjórinn Árni Sveinsson söngvaranum ástsæla Ragga Bjarna eftir á tveggja ára tímabili þar sem ýmislegt skemmtilegt gekk á. Myndin var frumsýnd á Skjaldborgarhátíðinni fyrir skemmstu en fer í almennar sýningar á föstudag.

„Ég hitti hann fyrst sumarið 2008. Þá fór ég með honum og Þorgeiri [Ástvaldssyni] á gamla ættaróðalið hans Ragga, Hrafneyri. Þá var ég að þreifa á þessu út af því að Þorgeir bað mig um að tékka á þessu. Hann langaði til að gera mynd um Ragga því hann var búinn að starfa með honum lengi,“ segir Árni. „Síðan er ég með þeim fyrir vestan og er að hlusta á þá segja endalausar sögur, þá kveikti ég bara strax á þessu að auðvitað átti að vera fyrir löngu búið að gera mynd um þennan mann og vini hans líka. Síðan er annað sem gerði þetta miklu stærra fyrir mér. Það er þessi saga sem er grunnurinn að dægurtónlistarsögu Íslendinga, hún bara er þarna,“ segir hann. „Þetta er ekki bara saga um einn mann, sem er búinn að vera sextíu ár í bransanum – ertu ekki að djóka? – heldur um skemmtanalíf Íslendinga allan þennan tíma og hvernig það hefur breyst.“

Í myndinni er farið á æskuslóðir Ragga, í Austurbæjarbíó þar sem hann tróð upp og sýnt frá 75 ára afmælistónleikum hans og spilamennsku með Retro Stefson og Dr. Spock. „Svo hittum við allt þetta lið sem hann er búinn að vera að umgangast allan þennan tíma, sem er ekki lítið skemmtilegt lið,“ segir Árni og bætir við að amma hans tengist Ragga einnig á undar­legan hátt. „Ég hef alltaf verið sannfærður um að ég myndi kynnast Ragga út af því að amma mín heitir Ragna Bjarnadóttir og vann í Austurbæjarbíói í 43 ár. Ég man þegar ég var krakki og fannst rosalega skrítið að það væri þessi söngvari sem héti nákvæmlega sama og amma. Þannig að það má segja að þetta séu örlög.“

Raggi hélt upphaflega að Árni ætlaði að taka upp fimmtán mínútna myndskeið með sér en sú varð aldeilis ekki raunin. Hann sér ekki eftir því að hafa hleypt Árna í líf sitt því hann er hæstánægður með myndina. „Ég hélt kannski að þetta yrði leiðinlegt en þetta er svakalega kvikk. Hún er klippt alveg yndislega og hún er aksjón, hún er alvöru. Ég tala líka um vandræðin og vesenið þannig að þetta er ekki bara glansmynd af mér. Ég segi hvernig þetta var.“



„Auðvitað átti að vera fyrir löngu búið að gera mynd um þennan mann”. - Árni Sveinsson leikstjóri.

freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.