Innlent

Formaður Mannréttindaráðs gagnrýnir Fjölskylduhjálp harðlega

Marta Guðjónsdóttir, formaður Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar. Mynd / Gunnar V. Andrésson
Marta Guðjónsdóttir, formaður Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar. Mynd / Gunnar V. Andrésson

„Þetta brýtur í bága við mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar," segir Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, um stefnu Fjölskylduhjálpar að hafa Íslendinga í forgangi.

Það var Fréttablaðið sem greindi frá því í dag að nú fer Fjölskylduhjálp fram á vottorð frá Félagsþjónustu Reykjavíkur vilji útlendingar, sem koma oftar en einu sinni í mánuði, fá matarúthlutun hjá Fjölskylduhjálpinni.

Ástæðan er, að sögn Ásgerðar Jónu Flosadóttur framkvæmdarstjóra Fjölskylduhjálpar, að ásókn útlendinga sé svo mikil að það bitni á Íslendingum.

„Á meðan Reykjavíkurborg styrkir Fjölskylduhjálp þá má ekki mismuna fólki vegna uppruna," segir Marta en Mannréttindaráð mun funda um málið klukkan ellefu í dag.

Marta segir að það þurfi skýrar reglur varðandi matarúthlutanir og hefur vissan skilning á framkvæmd Fjölskylduhjálpar en áréttar að allir verði að sitja við sama borð. Það verði ekki gert öðruvísi en með skýrum reglum.

„Ég lít þetta mál alvarlegum augum," segir Marta sem finnst mismununin helst í ætt við aðskilnaðarstefnuna sem lauk á tíunda áratug síðustu aldar.

Búast má við bókun vegna málsins hjá fundi Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar í hádeginu í dag en eins og áður hefur komið fram þá styrkir borgin Fjölskylduhjálp.


Tengdar fréttir

Íslendingar í forgang hjá Fjölskylduhjálp

Fjölskylduhjálp Íslands beindi í gær fólki í tvær biðraðir í vikulegri matarúthlutun sinni. Í aðra röðina fóru útlendingar en í hina Íslendingar, sem gengu fyrir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×