Lífið

Fyrirgefning og áfellisdómar Áhugaleikhússins

Á morgun sýnir Áhugaleikhús atvinnumanna sitt fjórða örverk um áráttur, kenndir og kenjar. Örverkin sem öll eru kennd við mánuðinn sem þau eru flutt í og eru hugleiðingar um mannlega tilvist í Reykjavík dagsins í dag eru hvert um sig frumsýnd síðasta fimmtudag í mánuði allt þetta ár.

Apríl er sagður grimmastur mánaða og lýsir verkið grimmd áfellisdómanna sem fljúga nú um þjóðarþelið. Fyrirgefningin er því efst á baugi í verkinu. Er áhorfendum boðið að taka þátt í einhvers konar friðþægingarathöfn og verður gerningurinn í Hugmyndahúsi háskólanna sem er í gamla Alliance-húsinu sem nú ber heitið Útgerðin. Verður sýningin jafnframt send út á slóðinni herbergi408.is.

Leikarar Áhugaleikhúss atvinnumanna munu ríða á vaðið með játningar og leiða athöfnina sem er öllum opin og er ókeypis aðgangur. Hægt er að líta á eldri verk hópsins á sömu slóð eða á síðunni ahugaleikhus-atvinnumanna.com.

Leikstjóri er Steinunn Knútsdóttir og meðal þátttakenda má nefna Aðalbjörgu Árnadóttur, Árna Pétur Guðjónsson; Hannes Óla Ágústsson, Orra Hugin Ágústsson, Ólöfu Ingólfsdóttur, Arndísi Egilsdóttur, Jórunni Sigurðardóttur, Láru Sveinsdóttur, Magnús Guðmundsson, Mörtu Nordal og Svein Ólaf Guðmundsson. - pbb
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×