Innlent

Um 4500 erlendir ríkisborgarar með kosningarétt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Rétt rösklega 4500 erlendir ríkisborgarar eiga kosningarrétt við sveitarstjórnarkosningarnar þann 29. maí næstkomandi og hefur dómsmála- og mannréttindaráðuneytið nú sent þeim öllum kynningarbækling um kosningarnar. Í bæklingnum er að finna leiðbeiningar á ellefu tungumálum auk íslensku um kosningarrétt, kjörskrá, framkvæmd atkvæðagreiðslu og fleira.

Samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna eiga kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar 18 ára og eldri sem hafa átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfellt fram á kjördag, og aðrir erlendir ríkisborgarar 18 ára og eldri sem hafa átt lögheimili hér á landi samfellt í fimm ár hið minnsta fram á kjördag.

Flestir hinna erlendu ríkisborgara koma frá Póllandi. Þeir eru 822 talsins. 586 koma frá Danmörku, en þar með eru taldir Færeyingar og Grænlendingar, 329 frá Þýskalandi, 245 frá Litáen, 232 frá Filippseyjum, 220 frá Bretlandi og 215 frá Taílandi, svo eitthvað sé nefnt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×