Innlent

Ákvörðun um samgöngumiðstöð bíður enn

Hugmyndir um byggingu samgöngumiðstöðvar eru umdeildar í Reykjavík. Andstæðingar flugvallarins telja að með þeim sé völlurinn festur í sessi þótt skipulag sé senn að renna út og borgarbúar hafi þegar ákveðið í kosningu að flytja flugvöllinn.
Hugmyndir um byggingu samgöngumiðstöðvar eru umdeildar í Reykjavík. Andstæðingar flugvallarins telja að með þeim sé völlurinn festur í sessi þótt skipulag sé senn að renna út og borgarbúar hafi þegar ákveðið í kosningu að flytja flugvöllinn.
Áform um byggingu 3.200 fermetra samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri eru enn í bið. Reykjavíkurborg á eftir að veita samþykki fyrir því að hefja 100 daga kynningarferli en framkvæmdir gætu fyrst hafist að því loknu. Því er óljóst hvort framkvæmdir munu hefjast á þessu ári.

Því var lýst yfir í vetur er leið að framkvæmdir ættu að hefjast í sumar og 80-90 manns myndu fá vinnu við verkið á tólf mánaða framkvæmdatíma. Borgaryfirvöld og samgönguráðuneyti gerðu samkomulag um framkvæmdina í apríl og fyrir lá vilyrði lífeyrissjóða um að fjármagna verkefnið með lánum.

Samgöngumiðstöðinni hefur verið ætlað að hýsa starfsemi tengda innanlandsflugi og hópferðabílum. Henni er ætlað að rísa í grennd við Loftleiðahótelið. Ráðgert hefur verið að innheimta nokkur hundruð króna gjald af hverjum seldum farmiða til að endurgreiða lán lífeyrissjóðanna vegna framkvæmdanna.

Málið hefur hins vegar ekkert hreyfst frá því í apríl. Borgaryfirvöld tóku ekki ákvörðun um að hefja kynningarferlið meðal borgarbúa fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí í vor. Ný borgarstjórn hefur ekki fjallað um málið frá því hún var kjörin. Málið hefur verið umdeilt meðal borgarbúa. Andstæðingar flugvallar í Vatnsmýri telja að með framkvæmdinni verði flugvöllurinn festur í sessi þrátt fyrir að gildandi skipulag renni út eftir sex ár og þrátt fyrir að borgarbúar hafi ákveðið í atkvæðagreiðslu fyrir meira en áratug að flugvöllurinn eigi að víkja úr Vatnsmýri.

Þrátt fyrir tilraunir undanfarna daga hefur Fréttablaðið ekki náð sambandi við nýjan formann og varaformann skipulagsráðs, Pál Hjaltason og Hjálmar Sveinsson, til að ræða málið og kanna vilja nýs meirihluta varðandi kynningarferli. Ekki náðist í gær í Ólöfu Örvarsdóttur skipulagsstjóra vegna málsins. Næsti fundur skipulagsráðs borgarinnar er áformaður 11. ágúst.- pg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×