Innlent

Stór dagur fyrir Suðurland, segir bæjarstjóri Ölfuss

Frá undirritun í dag.
Frá undirritun í dag.

Hönnun kísilverksmiðju í Þorlákshöfn og nýrrar virkjunar á Hellisheiði eru komin á fulla ferð en samningsrammi var undirritaður síðdegis. Bæjarstjóri Ölfuss segir þetta stóran dag fyrir Suðurland og Reykjavíkursvæðið enda muni verkefnið hafa gífurleg áhrif.

Stjórn kanadíska fyrirtækisins Timminco samþykkti samningsrammann fyrir sitt leyti í síðustu viku og stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í dag og var hann undirritaður nú síðdegis. Timminco hefur í samstarfi við íslenska félagið Strokk Energy stofnað félagið Thorsil um verkefnið.

Fyrir Orkuveituna þýðir undirskriftin að hönnun nýrrar virkjunar við Hverahlíð verður strax sett á fulla ferð með það í huga að framkvæmdir geti hafist eftir rúmt ár. Þá eru sex verkfræðingar byrjaðir að undirbúa kísilverið á Íslandi og samningur kominn við verkfræðistofu í Kanada. Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil, segir að umtalsverð vinna verði við verkfræðilegan undirbúning þetta og næsta ár. Smíði verksmiðjunnar á svo að hefjast um mitt næsta ár og framleiðsla kísilmálms síðla árs 2013, en hann verður síðan hreinsaður til nota í sólarflögur.

Sextíu milljarða fjármögnun verkefnisins er óleyst en Hákon telur að ekki verði erfitt að afla fjár til kísilversins. En hvað með fjármögnun virkjunar?

Guðlaugur Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, segir að þegar sé búið að fjármagna helminginn í gegnum Evrópska fjárfestingarbankann en menn verði svo að hinkra eftir því að Icesave fái farsælan endi til að menn komi að fullu að borðinu með Íslendingum. Vonast menn til að ljúka endanlegum samningum í apríl.

Bæjarstjóri Ölfuss, Ólafur Áki Ragnarsson, sér fram á 400 ársverk á byggingartíma og 160 framtíðarstörf í Þorlákshöfn.

"Þetta er virkilega stór dagur fyrir Suðurland í heild sinni því að þetta mun hafa gífurleg áhrif á allt Suðurland og höfuðborgarsvæðið líka," segir Ólafur Áki.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×