Enski boltinn

Ferguson segir að FIFA hafi móðgað England sem fótboltaþjóð

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Alex Ferguson er allta annað en ánægður með vinnubrögð FIFA
Alex Ferguson er allta annað en ánægður með vinnubrögð FIFA N

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United segir að Alþjóða knattspyrnusambandið hafi móðgað England sem knattspyrnuþjóð þegar FIFA kaus um hvar úrslitakeppni heimsmeistaramótsins færi fram árið 2018 og 2022.

England fékk aðeins 2 atkvæði af alls 22 í kosningunni og telur Ferguson að þar hafi sterkir aðilar haft áhrif innan nefndarinnar.

„Á Englandi er allt til alls fyrir slíka keppni. Það er auðvelt að ferðast um landið, keppnisvellirnir eru frábærir, enska úrvalsdeildin er sú besta í Evrópu og stuðningsmennirnir á Englandi eru frábærir. Það er að mínu mati hneyksli að England fékk aðeins tvö atkvæði í kjörinu," sagði Ferguson en hann hefur gagnrýnt innra starf FIFA og sérstaklega allar þær nefndir sem ráða ferðinni.

„Það þýðir ekkert að fara með þetta mál lengra því það er ekkert hægt að gera. Nefndirnar ráða öllu og jafnvel tveir til þrír aðilar í sex manna nefnd geta haft mikil áhrif á aðra. Þetta er vandamál sem fylgir nefndum, hvort sem það er í fótbolta, viðskiptum, stjórnmálum eða íþróttafélögum."

Ferguson telur að England muni ekki fá að halda heimsmeistarakeppnina nema að FIFA breyti aðferðum sínum í kjörinu.

„Eina lausnin sem ég kem auga á er að hvert land fá eitt atkvæði í kjörinu. Það er að mínu mati réttlátasta aðferðin þegar kemur að slíku vali," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×