Innlent

Klámnotkun Jóns Gnarr rædd í borgarráði

Erla Hlynsdóttir skrifar
Jón Gnarr segist aðallega skoða klám á netinu.
Jón Gnarr segist aðallega skoða klám á netinu. Mynd: GVA

Sóley Tómasdóttir, oddviti vinstri grænna í Reykjavík, hefur óskað eftir því að ummæli Jóns Gnarr borgarstjóra um klámnotkun hans verði tekin til umræðu í borgarráði í fyrramálið. Jón Gnarr var spurður að því í viðtali við frönsku fréttastofuna AFP hvað hann skoðaði helst á netinu og svaraði Jón hlæjandi: „Aðallega klám."

Spurð hvort þetta hafi ekki einfaldlega verið saklaus brandari hjá Jóni svarar Sóley: „Brandari kannski en ég get ekki fallist á að hann sé saklaus. Svona brandari gerir ekkert annað en að normalísera klám. Húmor er beitt vopn eins og Jón Gnarr veit vel. Með þessum brandara, ef um brandara er að ræða, er Jón Gnarr að nota hann til að normalísera klámnotkun. Það er mjög alvarlegt og í beinni andstöðu við yfirlýsta stefnu borgarinnar í mannréttindamálum," segir Sóley.

Henni finnst með öllu ólíðandi að borgarstjóri geri klámnotkun að gamanmáli. „Það er alveg skýrt í mannréttindastefnu borgarinnar að hún ætlar að beita sér gegn klámvæðingu og borgarstjóri þarf að vinna samkvæmt því. Það er líka alvarlegt þegar alþjóðasamfélagið fær þessi skilaboð frá borgarstjóra höfuðborgar jafnréttisríkisins Íslands."

Sóley bendir á að margir af yngri kynslóðinni líta upp til Jóns Gnarr og taka viðhorf hans sér til fyrirmyndar. „Það má velta fyrir sér hvaða áhrif þetta hefur á unga drengi því borgarstjóri Reykjavíkur er fyrirmynd margra drengja. Klámnotkun á Íslandi er vandamál og það er mikilvægt að borgarstjórinn beiti sér með en ekki á móti þeim opinberu stofnunum sem eru að berjast gegn kynlífsþrælkun og mansali en geri ekki lítið úr þeirri baráttu með svona ummælum," segir Sóley.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×