Innlent

Miðbæjarskólinn fær 120 milljónir til aðlögunar

Meðal þeirra bygginga sem fá fjárframlög frá ríkinu til endurbóta er Miðbæjarskólinn í Reykjavík, hægra megin á myndinni.FRÉTTABLAÐIÐ/gva
Meðal þeirra bygginga sem fá fjárframlög frá ríkinu til endurbóta er Miðbæjarskólinn í Reykjavík, hægra megin á myndinni.FRÉTTABLAÐIÐ/gva
Fjármálaráðherra lagði fram tillögu á fundi ríkisstjórnar í byrjun síðustu viku um að leggja fram 500 milljónir króna í uppbyggingu og viðhald ýmissa opinberra bygginga í landinu. Fjárframlagið var samþykkt á fundinum og listi yfir byggingarnar var síðar samþykktur í vikunni af efnahags- og viðskiptanefnd.

Langstærsti hluti framlagsins, 120 milljónir, rennur til eldvarnamála, viðhalds og endurbóta Miðbæjarskólans og aðlögunar byggingarinnar að nýju hlutverki. Nú standa yfir viðræður milli ríkis og borgar varðandi stækkun Kvennaskólans og hvort eigi að færa starfsemina úr núverandi byggingu yfir í Miðbæjarskólann.

„Við eigum nú í viðræðum við ríkið varðandi þann möguleika,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs. „Borgarráð er búið að samþykkja tillöguna til að tryggja áframhaldandi skólahald í miðborginni á framhaldsskólastigi. Þetta er nátengt hugmyndinni um að húsinu yrði sýnd virðing og það endurgert í því sem næst upprunalegri mynd.“

Hjálmar Sveinsson, varaformaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir að mikilvægast sé að halda húsinu vel við og að þar verði áfram starfrækt opinber starfsemi í eigu borgarinnar. „Þetta er frábær bygging og þessu fjármagni er örugglega vel varið,“ segir Hjálmar.

Landspítalinn fær samtals 90 milljóna framlag til ýmissa endurbóta og verkefna og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri fær 60 . Af þeim fara 50 milljónir í viðhald og endurbætur á endurhæfingar- og legudeildinni á Kristnesi í Eyjarfjarðarsveit og 10 milljónir í endurnýjun á vatnslagnakerfi elsta hluta sjúkrahússins. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fær 40 milljónir í almennar viðgerðir og hinar 190 milljónirnar skiptast niður á fleiri staði á höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi og Norðurlandi.

Verkefnin voru valin með áherslu á mannaflsfrekar viðhaldsframkvæmdir, sem gagnast helst þeim landsvæðum þar sem atvinnuleysi er mikið, og þær byggingar þar sem bæta megi aðgengi fatlaðra. Allar byggingarnar eru í opinberri eigu; söfn, heilbrigðis- og heilsugæslustofnanir og húsnæði tengt menntamálum.

sunna@frettabladid.is


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×