Innlent

Töluverðar líkur á að Keflavíkurflugvelli verði lokað

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Óvíst er hvort flug Icelandair haldi áætlun á morgun vegna gosösku. Mynd/ Pjetur.
Óvíst er hvort flug Icelandair haldi áætlun á morgun vegna gosösku. Mynd/ Pjetur.
Töluverðar líkur eru á því að Keflavíkurflugvelli verði lokað eftir hádegi á morgun, segir Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair. Icelandair breytir flugáætlun síðdegis á morgun vegna óvissu um loftrými yfir Keflavíkurflugvelli.

Flug Icelandair til og frá Keflavíkurflugvelli í fyrramálið er óbreytt og samkvæmt áætlun. Tveimur síðdegisflugum, flug FI 216/217 til/frá Kaupmannahafnar og FI 454/455 til/frá London hefur verið aflýst.

Flugi frá Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi, London, Amsterdam og Manchester/Glasgow til Íslands sem átti að koma til Keflavíkurflugvallar á bilinu klukkan 15 til 16 síðdegis á morgun verður beint til Glasgow. Nýtt flug frá Glasgow til Akureyrar fyrir þá farþega sem eru á leið til Íslands frá þessum borgum síðdegis verður sett upp og er koma þess til Akureyrar áætluð klukkan 18.30.

Flug síðdegis á morgun til Boston, New York og Seattle verður frá Glasgow í stað Keflavíkurflugvallar. Nýtt flug, milli Keflavíkurflugvallar og Glasgow verður sett upp, klukkan 10.00 í fyrramálið fyrir þá sem eru á leið til Bandaríkjanna og því er í raun brottför flugsins vestur um haf flýtt um um það bil fimm klukkustundir vegna óvissunnar.

„Staðan er óljós, en töluverðar líkur eru á að Keflavíkurflugvöllur verði lokaður á þessum tíma síðdegis á morgun. Því teljum við rétt að tilkynna breytinguna með þessum fyrirvara, því það er farþegum mikilvægt að geta gert viðeigandi ráðstafanir í tíma," segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Farþegar eru hvattir til þess að fylgjast með fréttum og upplýsingum um komu og brottfarartíma á www.icelandair.is og vefmiðlum því breytingar geta orðið með skömmum fyrirvara.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×