Innlent

Besti flokkurinn með hreinan meirihluta

Sigríður Mogensen skrifar

Besti flokkurinn fær hreinan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, 8 kjörna fulltrúa af fimmtán, samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, en rúm vika er í kosningar.

Framsóknarflokkurinn mælist með 2,7% fylgi og kemur engum inn. Sjálfstæðisflokkurinn tapar tæpum níu prósentustigum - mælist nú með þrjá borgarfulltrúa, en þeir voru fimm í síðustu könnun.

Reykjavíkurframboðið, H-listi Ólafs F. Magnússonar og Frjálslyndi flokkurinn mælast með um hálft prósentustig. Samfylkingin tapar einum manni frá síðustu könnun og fær þrjá borgarfulltrúa, mælist með jafnt fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn. Vinstri grænir tapa sjö prósentustigum frá síðustu könnun og koma einum manni inn.

Besti flokkurinn mælist með 44 prósenta fylgi , fær 8 menn. Fylgi hans tvöfaldast frá síðustu könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, þegar hann mældist með fjóra borgarfulltrúa.

Hringt var í 800 manns í gærkvöldi eftir slembiúrtaki og tóku 69 prósent afstöðu til spurningarinnar um hvaða lista fólk myndi kjósa ef kosið yrði nú. Færri eru óákveðnir en í síðustu könnun, en þá tóku 59 prósent afstöðu.

Besti flokkurinn er miðað við könnunina nú orðinn lang stærsta stjórnmálaaflið í borginni með hreinan meirihluta. Hann bætir við sig á kostnað stóru flokkanna og mælist með meira fylgi en Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn til samans.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.