Innlent

Efling slysavarna hefur skilað árangri

Leigusamningur þyrlunnar TF-EIR rann út 1. júlí og var ekki endurnýjaður. Einungis tvær þyrlur eru því til taks.FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Leigusamningur þyrlunnar TF-EIR rann út 1. júlí og var ekki endurnýjaður. Einungis tvær þyrlur eru því til taks.FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Útköllum Landhelgisgæslunnar hefur fækkað um 32 prósent frá árinu 2007 til ársins 2009. Þetta kemur fram í ársskýrslu Landhelgisgæslunnar fyrir árið 2009 sem nýlega kom út. Árið 2007 voru útköll alls 172 en árið 2009 voru þau 117.

„Það er búið að efla allar slysavarnir til sjós og lands og ég mundi halda að þetta væri forvarnastarfið,“ sagði Halldór B. Nellett, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgis­gæslunnar, spurður um málið. „Forvarnir í Slysavarnaskóla sjómanna hafa batnað. Árið 2008 var fyrsta árið sem enginn fórst á sjó, það segir sína sögu.“ Halldór telur að aukið samstarf við löggæslu í landi hafi skilað sér í meira öryggi á þjóðvegum landsins. „Við erum í góðu samstarfi við ríkislögreglustjóra um að vera sýnilegir við eftirlit með umferð. Það hefur sannað sig að það snarhægir á henni þegar menn vita að vélin er að fljúga,“ segir Halldór.

Landhelgisgæslan hefur ekki yfir sama tækjabúnaði að ráða nú og þegar mest var. Halldór segir það ekki hafa áhrif á fjölda útkalla. „Við höfum getað sinnt nánast öllum útköllum sem við höfum fengið. Við höfum allavega ekki hafnað einu einasta,“ sagði Halldór en bætti því þó við að hann myndi vissulega vilja hafa fleiri þyrlur til reiðu því teflt væri á tæpasta vað ef upp kæmu óvæntar bilanir eða frávik.- mþl



Fleiri fréttir

Sjá meira


×