Innlent

Geta sagt Icesave samningnum upp eftir áramót

Sigríður Mogensen skrifar
Lee Buchheit og félagar hans í samninganefndinni á fimmtudaginn. Mynd/ Valgarður.
Lee Buchheit og félagar hans í samninganefndinni á fimmtudaginn. Mynd/ Valgarður.
Nýju Iceasve samningarnir voru áritaðir með upphafsstöfum samninganefndarmanna Íslands, Bretlands og Hollands í London á fimmtudaginn. Áritunin er til vitnis um þá niðurstöðu sem fengin er í viðræðum ríkjanna.

Samningarnir verða ekki undirritaðir nema Alþingi hafi samþykkt lög sem veita fjármálaráðherra heimild til að staðfesta samningana. Drög að lagafrumvarpi þess efnis hafa verið smíðuð og verður frumvarpinu dreift á Alþingi í þessari viku. Verið er að semja greinargerð með frumvarpinu.

Í Icesave samningunum sem fréttastofa hefur undir höndum eru ákvæði um að Bretar og Hollendingar geti einhliða sagt sig frá samkomulaginu ef ákveðin skilyrði hafi ekki verið uppfyllt fyrir 31. desember næstkomandi. Meðal annars þurfi Alþingi að hafa samþykkt Icesave lögin og þau þurfa að hafa tekið gildi.

Segir í samningunum að lögin þurfi að hafa tekið formlegt gildi og að þau þurfi að vera orðin bindandi, þannig að ekki verði hægt að nema þau úr gildi með neinum hætti, til að mynda með þjóðaratkvæðagreiðslu. Með öðrum orðum þurfi Alþingi að hafa samþykkt lögin og forseti Íslands að hafa staðfest þau fyrir áramót. Eftir 31. desember geta Bretar og Hollendingar hætt við samkomulagið með tilkynningu til tryggingarsjóðs innistæðueigenda og íslenskra stjórnvalda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×