Enski boltinn

Ancelotti sefur ekki vel þessa dagana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea.
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea. Mynd/AP
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, viðurkennir að hann eigi erfitt með að slaka á þessa vikurnar en segist þó ekki hafa áhyggjur af starfinu sínu. Það hefur lítið gengið hjá Chelsea undanfarið í ensku úrvalsdeildinni en liðið hefur aðeins náð í 5 stig af síðustu 18 mögulegum og er fyrir vikið dottið niður í 3. sæti.

„Ég hef áhyggjur og sef ekki vel þessa dagana. Ég hef samt áfram trú á mínum leikmönnum og treysti þeim. Þetta er samt ekki þægilegur tímar fyrir mig," sagði Carlo Ancelotti en Chelsea hefur ekki náð að vinna í síðustu fjórum deildarleikjum sínum.

„Við erum ekki að gera nóg til þess að vinna leiki. Við verðum að leggja harðar að okkur því það er eina leiðin sem ég sé út úr þessu fyrir okkur," sagði Ancelotti.

„Ég hef ekki áhyggjur af starfinu mínu. Ég veit hinsvegar að liðið verður að spila betur og ná betri úrslitum. Framtíð mín er ákveðin af félaginu sjálfu en ég finn ekki fyrir neinni pressu," sagði Ancelotti.

„Ég hef oft þurft að takast á við mótlæti á mínum ferli og ég hef lært það að besta leiðin til þess að komast í gegnum mótlæti er að standa saman og leggja mikið á sig á æfingavellinum. Við höfum ennþá nógan tíma til að koma til baka og fara að spila okkar fótbolta. Við getum aftur orðið samkeppnishæfir í bæði ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni," sagði Ancelotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×