Innlent

Vara við rangfærslum og hræðsluáróðri

Evrópusamtökin segja unga bændur slíta orð Angelu Merkel úr samhengi.
Evrópusamtökin segja unga bændur slíta orð Angelu Merkel úr samhengi.

Evrópusamtökin mótmæla í yfirlýsingu auglýsingum Samtaka ungra bænda, sem birtust í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í gær. Samtökin segja umræðu um málefni Evrópusambandsins verða að vera málefnalega, ekki byggða á rangfærslum og hræðsluáróðri.

Í auglýsingunnni segir: „Við viljum ekki senda afkomendur okkar í Evrópusambandsherinn." Þar var vitnað í orð Angelu Merkel Þýskalandskanslara, þar sem hún sagði lengi hafa staðið til að koma upp Evrópusambandsher.

Evrópusamtökin segja ummæli Merkel slitin úr samhengi og mistúlkuð í auglýsingunni.

„Við hjá Evrópusamtökunum vitum varla hvort við eigum að hlæja eða gráta vegna þessarar auglýsingar. Það er alveg ljóst að engar hugmyndir eru uppi innan Evrópusambandsins um stofnun sameiginlegs hers í líkingu við her einstakra landa," segir í yfirlýsingu Evrópusamtakanna.

Þar segir enn fremur að komið hafi verið á laggirnar hraðsveitum skipuðum hermönnum úr herjum aðildarlandanna. Sveitunum sé ætlað að stilla til friðar á átakasvæðum. Hverju aðildarlandi sé það í sjálfsvald sett hvort það sendi hermenn sína í þessar sveitir.

Helgi Haukur Hauksson, formaður Samtaka ungra bænda, segir þetta eitt af þeim málum sem verði að ræða nú þegar Ísland hafi sótt um inngöngu í ESB. Hann segir að þó nú sé stefnt á ákveðið fyrirkomulag segi það ekki til um hvað gerist í framtíðinni. Ungir bændur vilji ekki að íslensk ungmenni deyi í hernaði.- bj





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×