Innlent

Ósáttur við að allt sé lokað á háannatíma

Boði Logason skrifar
Reykhólar. Mynd tengist frétt ekki beint.
Reykhólar. Mynd tengist frétt ekki beint.
„Þetta er háannatími og það er allt lokað af því það er sunnudagur," segir Steinar Pálmason, sem rekur gistiheimilið Álftaland á Reykhólum. Hann segist hafa tekið á móti þrjátíu Þjóðverjum í morgun en hafi ekki getað farið með þá á hlunnindasýningu sem er á svæðinu vegna þess að allt sé lokað. Hann hefur reynt að ná í sveitarstjórann í allan dag án árangurs.

„Við erum að reyna að halda uppi ferðamannaiðnaði hér á Vestfjörðunum og það litla sem er í boði er bara lokað," segir Steinar sem segist hafa reynt að ná tali af sveitarstjóranum Óskari Steingrímssyni en án árangurs. „Hann svarar ekkert símanum. Mig langar til að spyrja hann: Hvað veldur því að allt sé lokað?"

Steinar á von á tuttugu Spánverjum nú síðdegis. „Þeir eiga örugglega eftir að segja, eigum við að fara á hlunnindasýninguna? En ég verð að segja: Nei, það er bara lokað," segir Steinar en hlunnindasýningin er það sem ferðamenn sækjast eftir að skoða að hans sögn.

Ekki náðist í Óskar Steingrímsson, sveitarstjóra Reykhólahrepps, við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×