Lífið

Feðgin föndruðu myndband

Tónlistarmaðurinn Ummi bjó til nýtt myndband við lagið Svefnleysi með dætrum sínum tveimur.
fréttablaðið/pjetur
Tónlistarmaðurinn Ummi bjó til nýtt myndband við lagið Svefnleysi með dætrum sínum tveimur. fréttablaðið/pjetur
Tónlistarmaðurinn Ummi fékk dætur sínar sem eru sex og níu ára, þær Ísabellu Unni og Karen, til að vinna með sér nýtt myndband við lagið Svefnleysi. Það er þriðja smáskífulagið af fyrstu sólóplötu hans, Ummi, sem kom út fyrr á þessu ári.

„Eins og öll börn þá elska þær að teikna og leira og mála, svo það er tilvalið að nota þá orku í myndbandagerð,“ segir Ummi. Um hreyfimyndband er að ræða þar sem hlutir eru hreyfðir, mynd tekin og þeir síðan hreyfðir aftur. Þetta er síðan endurtekið margoft. „Við bjuggum bara til tunglið og aðra hluti úr leir og svo notuðum við bara allt sem féll. Til dæmis klipptum við niður bláan plastpoka til að gera „splassið“ þegar tunglið dettur í sjóinn. Sjórinn var bara Cherioos-pakkar klipptir til og málaðir og bakgrunnurinn var gamalt lak sem við máluðum, svo að þetta var hvorki hátæknilegt né dýrt. Þetta var bara meira föndur og fjör hjá okkur,“ segir Ummi, sem starfar sem þrívíddarlistamaður í London og hefur unnið við stórmyndir á borð við Avatar, Harry Potter og Batman Begins. Hann er einnig fyrrverandi meðlimur Sólstrandargæjanna.

Ummi samdi Svefnleysi þegar hann var að svæfa Ísabellu þegar hún var eins til tveggja ára. „Það er í raun um þakklæti og ást, frelsi og þessa tilfinningu að geta faðmað barnið sitt og horft á það sofa.“ Lagið er ókeypis og aðgengilegt til niðurhals á síðunni Ummi.is, þar sem einnig er hægt að sjá myndbandið. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.