Innlent

Fundar með Bjarnfreðarsyni um minnisvarða um Helga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Helgi Hóseasson stóð jafnan á gatnamótum Langholtsvegar og Holtavegar. Mynd/
Helgi Hóseasson stóð jafnan á gatnamótum Langholtsvegar og Holtavegar. Mynd/
Vonast er til þess að minnismerkið um Helga Hóseasson, mótmælanda Íslands, verði komið upp á gatnamótum Langholtsvegar og Holtavegar áður en sumri lýkur. Alexander Freyr Einarsson hefur átt veg og vanda að því að fá styttuna setta upp. Hann segir að S. Helgason sé að hanna hellu úr íslensku blágrýti með fótspori Helga Hóseassonar og áletruninni „Hver skapaði sýkla". Lokateikning að hellunni er tilbúin. „Ég ætla að ræða þetta við aðstandendur Helga og sjá hvort þau samþykki þetta en að mínu mati er þetta bara svona nettur og flottur minnisvarði sem ég held að yrði bara við hæfi," segir Alexander í samtali við Vísi.

Hann segir að stytta af Helga hafi ekki komið til greina. „Þegar ég ræddi við Hönnu Birnu (fyrrverandi borgarstjóra; innsk. blm) á sínum tíma þá sagði hún að stytta væri kannski ekki raunhæfur möguleiki. Auk þess var fjölskyldan hans ekkert hrifinn af því. Fannst það kannski of mikið hégómagirnd," segir Alexander. Þess vegna hafi minnissteinninn verið við hæfi. Alexander segir að sér hafi líka fundist vel við hæfi að hafa letrið af einu þekktasta skilti Helga á hellunni.

Alexander býst við því að næstu skref verði að tala við nýja borgarstjórann um málið og um leið verði hellan framleidd. „Ég þarf kannski að fá fund með Georgi Bjarnfreðarsyni til að vita hvort þetta sé ekki í góðu ennþá. Í það minnsta talaði Hanna Birna um að ég þyrfti bara að senda ritaranum hennar meil þegar að hönnunin væri tilbúin," segir Alexander.

Alexander segir að söfnunin sem hann hratt af stað hafi gengið illa. Rétt rúmlega 50 þúsund krónur hafi safnast. Það þurfi hins vegar ekki að koma að sök því að steinsmiðjan S. Helgason hyggist gefa steininn. „Peningurinn liggur í raun bara inni á reikningi og ég þarf að ákveða hvort ég eigi að nota hann í einhvern viðhaldskostnað eða hvort maður endurgreiði þeim sem voru svo góðir að leggja inn á hann," segir Alexander.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×