Innlent

Metaðsókn í framhaldsskóla

Sigríður Mogensen skrifar
Menntaskólinn í Reykjavík.
Menntaskólinn í Reykjavík.

Yfir tvö hundruð nemendur fengu ekki skólavist í þeim framhaldsskólum sem þeir settu í fyrsta eða annað val. Níutíu og fimm prósent nemenda fengu pláss í þeim skólum sem þeir óskuðu helst eftir.Innritun nýmena lauk um miðjan júní og hefur aðsókn aldrei verið jafn mikil og í ár.

Ríflega áttatíu prósent fengu pláss í skólum sem þeir settu sem fyrsta val. Tekin hefur verið upp hverfaskipting við inntöku í framhaldsskóla, þar sem fjörutíu og fimm prósent plássa eiga að fara til nýnema sem búa í nágrenni skóla, uppfylli þeir inntökuskilyrði.

Það fyrirkomulag hefur verið nokkuð gagnrýnt að undanförnu en fullyrt er á vefmiðlinum Pressunni að lögmaður kanni hvort hverfaskiptingin standist lög.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir í samtali við Fréttablaðið í dag að þegar horft sé til þess að landið sé eitt innritunarsvæði og þess að nú eiga allir undir 18 ára aldri rétt á skólavist í framhaldsskóla, hafi ekki verið hjá því komist að byggja að einhverju leyti á því að nemendur ættu forgang eftir búsetu í almennt nám. Það sé málefnalegt og stuðli að því að tryggja öllum skólavist.

Katrín segir að samið sé um verklag við hvern og einn skóla og gert sé ráð fyrir kröfu um að 45 prósent plássa ráðist eftir búsetu í þeim samningum. Fjárveitingar og aðstæður geri það að verkum að ekki sé unnt að verða við öllum óskum og því verði að grípa til einhverra stýrandi aðgerða til að veita öllum skólavist.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×