Innlent

Stórskemmdu Porsche jeppa

Gissur Sigurðsson skrifar
Porsche jeppi.
Porsche jeppi.
Skemmdarvargar unnu milljóna tjón á bílum og vinnuvélum í Vesturborginni í nótt og komust undan.

Þeir brutu allar rúður nema eina í Porche jeppa, sem stóð að bílastæðinu við Flugfélag Íslands. Síðan brutu þeir rúður og spegla í tveimur nýjum bílum og tveimur vinnuvélum við Fjörugranda. Þar sáu nágrannar til tveggja ungra manna, dökkklæddra í hettupeysum, en þeir forðuðu sér. Vitni við Hofsvallagötu gaf lögreglu sömu lýsingu á mönnum, sem unnu skemmdarverk á vörubíl þar, og loks voru rúður og speglar brotnar í tveimur vinnuvélum við Sæmundargötu, en þar voru engin vitni.

Lögreglu grunar að sömu tveir mennirnir hafi verið að verki í öllum tilvikunum, enda voru skemmdarverkin framin á tiltölulega afmörkuðu svæði. Í öðru tilvikinu, sem til þeirra sást, telur vitni að þeir hafi komist undan á grænum jeppa, sem minnir á herjeppa. Lögregla telur í fljótu bragði að tjónið hlaupi á milljónum króna, fyrir utan óþægindi sem eigendur bílanna og vélanna verða fyrir vegna þessa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×