Lífið

Alan Jones fer nýjar leiðir

skref í rétta átt Alan er ánægður með nýja lagið sitt Look Around, sem fer í spilun á næstu vikum. fréttablaðið/vilhelm
skref í rétta átt Alan er ánægður með nýja lagið sitt Look Around, sem fer í spilun á næstu vikum. fréttablaðið/vilhelm
„Ég er að prófa eitthvað alveg nýtt og ferskt,“ segir söngvarinn Alan Jones, en á næstu vikum kemur út nýtt lag með kappanum sem ber nafnið „Look around“.

Lagið gerði Alan með plötusnúðnum Tomma White, en hann hefur lengi verið einn þekktasti „house“ plötusnúður landsins. „House-tónlist hefur mikla sál og ég held að þetta sé stórt skref í rétta átt,“ segir Alan, og bætir við að lagið sitt fjalli um ást og frið.

Alan tók þátt í X-factor árið 2007 og hefur síðan þá verið að fóta sig innan íslenska tónlistargeirans. Hann hefur lengi vel haldið upp á tónlistarmanninn Michael Jackson og hefur síðasta árið ferðast um landið og sungið lög Jacksons við ýmis tækifæri. Nú er hann hins vegar búinn að finna sig í „house“-tónlistinni og því vert að vita hvort fleiri lög frá honum séu á leiðinni. „Við Tommi erum byrjaðir að vinna að öðru lagi en „Look around“ fer vonandi í spilun í byrjun desember,“ segir Alan. Hann segist ekki vera með plötu á leiðinni. „Mér finnst bara ganga upp að gera eitt og eitt lag í svona „house“-stíl, svo ég ætla aðeins að bíða með það að gefa út plötu.“

Alan verður í jólaþorpinu í Hafnarfirði á laugar­daginn og því vert að vita hvort hann ætli að taka „Look around” fyrir gesti og gangandi. „Nei ég ætla ekki að syngja það strax. Ég verð bara með gömlu góðu Michael Jackson lögin,” segir Alan og hlær. - ka





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.