Innlent

Slitastjórn Glitnis mun athuga innistæður Jóns Ásgeir

Slitastjórn Glitnis ætlar að gera sjálfstæða athugun á því hvort innistæður upp á yfir þrjátíu milljarða króna sem Jón Ásgeir Jóhannesson sendi Lárusi Welding og Jóni Sigurðssyni upplýsingar um í september 2008, hafi tilheyrt Iceland Foods. Formaður slitastjórnarinnar segir rannsókn Kroll ekki ábótavant.

Malcolm Walker, forstjóri Iceland Foods, sagði í fréttum okkar í gær að innistæður upp á 202 milljónir punda, sem Jón Ásgeir sendi Lárusi Welding og Jóni Sigurðssyni upplýsingar um í september 2008, hafi tilheyrt Iceland Foods. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, sagði í eiðsvörnum vitnisburði fyrir breskum dómstólum að slitastjórnin og Kroll hafi ástæðu til að ætla að þær tilheyrðu Jóni Ásgeiri.

- Núna segir forstjóri Iceland Foods, að þessar innistæður hafi tilheyrt því fyrirtæki, eruð þið með gögn sem sýna fram á annað?

„Nú þessi skýring er komin fram núna og við munum að sjálfsögðu gera okkar athuganir á þessu en það er ekkert sem ég get tjáð mig um á þessu stigi," segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis.

- En hvers vegna er þetta að koma fyrst fram núna?

„við auðvitað fengum upplýsingar um þetta í gegnum tölvupóst en höfum ekki fengið neinar skýringar fyrr en núna á þessu," segir Steinunn.

Steinunn segist ekki óttast að málið skaði trúverðugleika rannsóknarinnar:

„Og ég get fullyrt það að það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af því að það séu einhverjar „loopholes" í rannsókninni."

- Eruð þið með gögn sem sýna fram á að Jón Ásgeir sé að segja ósatt?

„Ég get ekki tjáð mig um það en ég get vísað í það sem þegar er komið fram og orð dómarans við réttarhaldið í Bretlandi, að málið væri hið undarlegasta og það stemmdi ekki," segir hún.

Sjá frétt hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×