Innlent

Fráleitt að lögbrot leiði til forsendubrests

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
„Þessi niðurstaða er vissulega vonbrigði, en maður átti svo sem von á þessari niðurstöðu,“ segir Marinó G. Njálsson, stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna. Hann segir að það mikilvæga sé að nú fari málið til Hæstaréttar, þar sem endanleg niðurstaða fáist.

Marinó segir það einkennilegt hjá dómaranum að telja að lánafyrirtækið hafi orðið fyrir forsendubresti þegar Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að gengistryggð lán væru ólögleg. Fráleitt sé að telja það forsendubrest brjóti lánveitandinn lög. Í öllu falli sé óeðlilegt að tekið sé tillit til forsendubrests lánveitandans en ekki lántakans.

Í dómnum segir að Lýsing eigi rétt á greiðslum samkvæmt því sem líklegt sé að samið hefði verið um, „án tillits til villu þeirra beggja“. Marinó gerir athugasemdir við þetta orðalag, þar sem augljóst sé að lánveitandinn hafi brotið lög. „Neytandinn á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort vara sem í boði er á markaði sé lögleg eða ekki.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×