Innlent

Þjónusta við sjúklinga verulega skert

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Forstjóri Landspítalans segir að nauðsynlegt hafi verið að minnka umsvif spítalans. Mynd/ Anton.
Forstjóri Landspítalans segir að nauðsynlegt hafi verið að minnka umsvif spítalans. Mynd/ Anton.
Landspítalinn hefur skorið verulega niður þjónustu við sjúklinga á fyrstu mánuðum ársins ef miðað er við sama tímabil í fyrra. Þetta sýnir netútgáfa starfsemisupplýsinga spítalans glöggt, en hún var birt í dag. Meðalfjöldi inniliggjandi sjúklinga hefur minnkað um 12,3%. Á fyrstu sex mánuðum síðasta árs lá 621 sjúklingur inni á spítalanum á hverjum degi. Í ár hefur að meðaltali 545 sjúklingur legið inni á hverjum degi. Að sama skapi hefur komum á göngudeildir fjölgað.

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir að markvisst hafi verið unnið að því að minnka spítalann og auka þjónustu á dagdeildum. „Eina leiðin til að komast í gegnum þessi fjárlög var að færa þjónustuna á ódýrara stig - frá sólarhringsþjónustu í að þjónustan er veitt að degi til," segir Björn. Hann segir þjónustuna dýrasta þar sem rúmin eru opin allan sólarhringinn. Stóra málið hafi verið að draga úr launakostnaði á kvöldin og um nætur.



Skurðaðgerðum fækkað


En það er ekki nóg með að innlögnum hafi fækkað heldur hefur skurðaðgerðum fækkað um 4,0% og rannsóknum hefur fækkað um 18%. Björn segir að verið sé að minnka framboð á skurðaðgerðum. Það hafi ekki ennþá skilað sér í auknum biðlistum enda hafi Landlæknir gefið út álit þar sem kemur fram að það sé áhugavert að biðlistar minnki þrátt fyrir að skurðaðgerðum fækki.

„Markmiðið er að minnka þjónustuna eins mikið og hægt er án þess að það komi niður á öryggi sjúklinganna og þeirri meðferð sem þeir fá," segir Björn. Einnig sé reynt að hagræða í lyfjakaupum og öðrum innkaupum auk þess sem dregið hafi verið úr framboði á þjónustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×