Innlent

Í-listinn mælist með hreinan meirihluta

Könnunin.
Könnunin.

Í-listinn, sameiginlegt framboð Samfylkingar, Vinstri grænna, Frjálslyndra og óháðra, fær hreinan meirihluta bæjarfulltrúa á Ísafirði samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem gerð var í gærkvöldi.

Framboðið nýtur stuðnings 48,4 prósenta þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni. Verði það niðurstaða kosninga fengi framboðið fimm bæjarfulltrúa af níu. Framboðið fékk 40 prósent atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum 2006 og fjóra menn kjörna í bæjarstjórn sveitarfélagsins.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er samkvæmt könnuninni fallinn. Sjálfstæðisflokkurinn tapar verulegu fylgi samkvæmt könnuninni. Flokkurinn fengi 29,1 prósent atkvæða, en naut stuðnings 42,4 prósenta Ísfirðinga í síðustu kosningum. Flokkurinn fengi miðað við þetta fylgi þrjá bæjarfulltrúa, en er með fjóra í dag.

Framsóknarflokkurinn fengi 16,2 prósent atkvæða ef kosið yrði nú samkvæmt könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Það er lítils háttar aukning frá kosningunum 2006, þegar flokkurinn fékk 15,6 prósent. Niðurstaðan hefur ekki áhrif á fjölda bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins. Flokkurinn myndi halda sínum eina fulltrúa yrðu þetta niðurstöður kosninga.

Alls sagðist 8,1 prósent þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni ætla að kjósa Kammónistalistann yrði gengið til sveitarstjórnarkosninga nú. Verði það niðurstaðan í komandi kosningum nær listinn ekki inn bæjarfulltrúa.

Kammónistalistinn er nýtt framboð skipað nemendum úr Menntaskólanum á Ísafirði. Menntskælingar hafa áður boðið fram, og náðu tveimur mönnum í bæjarstjórn árið 1996 undir merkjum Fönklistans. Þeir virðast langt frá þeim árangri samkvæmt könnun gærkvöldsins.

Hringt var í 600 manns miðvikudaginn 19. maí. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir aldri.

Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til sveitarstjórnarkosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var að lokum spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk? Alls tóku 65,8 prósent afstöðu til spurningarinnar.

brjann@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×