Innlent

Hús Lárusar líka kyrrsett

Fallist sýslumaður á kyrrsetningu eigna Lárusar Weldings, fyrrverandi forstjóra Glitnis, hafa eignir hans, og annarra Glitnismanna, fyrir nær einn milljarð króna, verið kyrrsettar.

Við greindum frá því í gær að Pálmi Haraldsson, kenndur við Fons, hefði greitt skilanefnd Glitnis ríflega hálfan milljarð króna til þess að komast undan því að eigur hans yrðu kyrrsettar. Sú eign sem Pálmi vildi ná undan kyrrsetningu er félagið Iceland Express.

Skilanefnd Glitnis stefndi þeim Pálma, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Lárusi Welding fyrr í sumar og krefst 6 milljarða króna í skaðabætur. Er þeim gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína gagnvart Glitni til að hagnast á því persónulega og hafa í leiðinni valdið bankanum fjártjóni. Jón Ásgeir og Pálmi voru helstu eigendur bankans fram að hruni, en Lárus var bankastjóri.

Nú þegar hafa eignir Jóns Ásgeirs verið kyrrsettar fyrir samtals tæplega tvöhundruð milljónir. Þá mun einnig hafa verið sett fram kyrrsetningarbeiðni á glæsihús Lárusar og er það mál í meðferð hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Samtals mun skilanefndin því kyrrsetja nær einn milljarð króna af eignum þeirra félaga til að tryggja að eitthvað fáist upp í sex milljarða króna skaðabótakröfu bankans, þ.e. vinnist málið fyrir dómstólum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×