Innlent

Vill að bæjarstjóri Hveragerðis haldi akstursdagbók

Róbert Hlöðversson, oddviti A-listans.
Róbert Hlöðversson, oddviti A-listans.

„Okkur finnst bara eðlilegt að menn haldi akstursdagbók," segir Róbert Hlöðversson, oddviti A-listans í Hveragerði, en hann gagnrýnir bæjarstjóra Hveragerðis harðlega fyrir há laun. Það var Fréttablaðið sem sagði fyrst frá launum bæjarstjórans en A-listinn lagði fram tillögu um að launin yrðu lækkuð þar sem heildarlaun bæjarstjórans eru ein milljón og fimmtíu þúsund krónur.

Þá gagnrýnir Róbert það harðlega að bæjarstjórinn, sem heitir Aldís Hafsteinsdóttir og er í Sjálfstæðisflokknum, fái fastan bifreiðastyrk fyrir um 1300 kílómetra akstur alla mánuði ársins en það gera um það bil 130 þúsund krónur á mánuði.

Í grein sem Róbert skrifaði í dag og birti í Fréttablaðinu og á Vísi reiknast honum til að bæjarstjórinn þurfi að aka 70 kílómetra á dag til þess að fullnýta styrkinn. Það þýðir að hún þarf að aka í minnsta kosti klukkustund á dag.

Að sögn Róberts halda aðrir bæjarstarfsmenn akstursbók og það sama ætti að gilda um hana að hans mati.

Honum ofbýður hinsvegar há laun bæjarstjórans og segir að hún sé á pari við borgarstjóra Reykjavíkur í launamálum. Munurinn sé sá hinsvegar að borgarstjórinn stjórnar rúmlega 100 þúsund manna bæjarfélagi á meðan um 2000 manns búa í Hveragerði.

Þess má geta að borgarstjóri Reykjavíkur var með 935 þúsund krónur í mánaðarlaun árið 2009. Þá fékk borgarstjórinn aukalega starfstengdan kostnað greiddan upp á rúmar 66 þúsund krónur samkvæmt frétt sem Morgunblaðið birti á síðasta ári.

Launahæsti bæjarstjórinn var þó bæjarstjóri Seltjarnarness, Ásgerður Halldórsdóttir, en hún var með rétt rúmlega 1300 þúsund krónur í mánaðarlaun.

Bæjarstjóri í Hveragerði er hinsvegar með rétt tæpar 500 þúsund krónur í grunnlaun en styrkir og annar kostnaður hífir hana yfir milljón krónur á mánuði.

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins sagði gagnrýni A-listans ranga og misvísandi og felldi tillögu minnihlutans um að bæjarstjórinn fengi aðeins greitt fyrir þá yfirvinnu sem hann vinni eða þá að taka yfirvinnutíma sem frí. Sömuleiðis var fellt að hann fengi greiddan bílastyrk í samræmi við akstursbók eins og aðrir bæjarstarfsmenn og að biðlaunarétturinn yrði þrír mánuðir í stað sex mánaða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×