Innlent

Breytingar nái í gegn fyrir áramót

Jón Björn Skúlason
Jón Björn Skúlason
Von er á fyrstu tillögum verkefnisstjórnar Grænu orkunnar til iðnaðarráðherra undir lok ágústmánaðar, að sögn Jóns Björns Skúlasonar verkefnisstjóra. Græna orkan er heiti á klasasamstarfi um orkuskipti sem miðar að því að auka hlut visthæfra innlendra orkugjafa í samgöngum á kostnað innflutts kolefnaeldsneytis.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra kynnti verkefnisstjórnina í byrjun júní og átti þá „á næstu vikum" von á tillögum, svo sem varðandi ívilnanir handa fólki og fyrirtækjum sem breyta vilja ökutækjum þannig að þau noti visthæfa innlenda orkugjafa.

„Það er verið að vinna á fullu í málunum," segir Jón Björn, en bætir um leið við að brenna vilji við að minni hraði sé hér á hlutum í júlí en aðra mánuði.

„Við höfum stefnt á að kynna ráðherra tillögur okkar 15. til 20. ágúst, en þær fara svo fyrir ríkisstjórn og Alþingi," segir hann og bætir við að að því sé stefnt að tillögur verkefnisstjórnarinnar geti orðið að veruleika fyrir áramót.

„Tillögur, frumvörp og annað eiga að vera tilbúin þegar Alþingi kemur saman í október. En við erum núna að safna gögnum og ræða ólíkar leiðir sem henta hinu opinbera," segir Jón Björn. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×