Innlent

Fjármálaráðuneytinu bar að bjóða út kaup á flugfarmiðum

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.
Fjármálaráðuneytið braut lög með því að semja einhliða um kaup á flugfarmiðum af Icelandair í maí í fyrra. Þetta segir kærunefnd útboðsmála.

Iceland Express kærði fjármálaráðuneytið vegna samningsins við Icelandair og krafðist skaðabóta. Kærunefndin segir hins vegar að þótt ráðuneytið hafi ekki sinnt útboðsskyldu sinni hafi Iceland Express ekki sýnt fram á að fyrirtækið hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valið af ráðuneytinu í útboði. Þá hafi ráðuneytið komið til móts við kröfu fyrirtækisins að því leyti að það hafi beint því til Ríkiskaupa að skoða möguleika á að bjóða út innkaupin á farmiðunum.

Iceland Express benti á að kostnaður af ferðum ráðherra og starfsmanna ráðuneyta á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs hafi numið 280 milljónum króna. Verulegur hluti þess væri vegna farmiðakaupa.

Fjármálaráðuneytið fyrir sitt leyti bar því meðal annars við að ekki væri um svokallaðan rammasamning að ræða. Aðeins væri um að ræða kaup á stökum farmiðum í hvert skipti. Þessari skilgreiningu hafnar kærunefndin. Þó ekki sé hægt að leggja saman öll kaup ríkisins á farmiðum hafi ráðuneytið gert samning um afsláttarkjör fyrir hönd fjölmargra opinberra aðila og því sjálft hlotið að hafa metið það sem svo að um samlegðar­áhrif væri að ræða. Í samræmi við útboðsskyldu og jafnræðisreglu laga hafi átt að bjóða viðskiptin út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×