Söngkonan Jessica Simpson trúlofaðist nýverið unnusta sínum, fyrrverandi íþróttamanninum Eric Johnson. Að sögn Simpson hafði pilturinn mikið fyrir því að fela hringinn fyrir henni þar til hann bar upp bónorðið.
„Hann faldi hringinn ofan í skópari einhvers staðar í húsinu. Mér fannst það skrítinn felustaður, en það virkaði. Ég var alveg grunlaus,“ sagði söngkonan í útvarpsviðtali.
Eins og sönnum herramanni sæmir hafði Johnson fengið leyfi foreldra Simpson til að kvænast henni og því vissu foreldrarnir af ráðahagnum löngu áður en dóttir þeirra.
„Ég trúi ekki að fjölskylda mín hafi getað þagað svona lengi yfir leyndarmáli. Ég var að horfa á sjónvarpið og hann bað mig um að setja þáttinn á pásu, svo kraup hann fyrir framan mig og bað mín. Ég varð svo hissa að ég missti næstum málið. Ég hef aldrei upplifað aðra eins stund, aldrei.“