Innlent

Segir ummæli Davíðs ómakleg

Vilhjálmur Egilsson formaður samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson formaður samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson formaður samtaka atvinnulífsins segir ummæli Davíðs Oddssonar á landsfundi flokksins hafa verið ómakleg en hann láti þau ekki hafa áhrif á sig. Davíð sagði skýrslu Endurreisnarnefndar flokksins sem Vilhjálmur stýrði vera hrákasmíð og hann sæi eftir þeim trjágróðri sem notaður var í prentun skýrslunnar. Vilhjálmur segir að með þessu sé Davíð að gera lítið úr þeim 80 einstaklingum sem stóðu að skýrslunni.

„Það getur hver dæmt fyrir sig sem les þessa bók en mér finnst hún góð og að það hafi tekist mjög vel til. Þetta starf var til fyrirmyndar og mikill áhugi sem sýnir að grasrót flokksins er lifandi," segir Vilhjálmur.

„En hann gefur þessu fólki þá einkun að þetta sé hrákasmíð eða hvaða orð hann notaði. Menn geta þá bara séð listann yfir þá sem komu að þessu," segir Vilhjálmur en um 80 manns komu að smíði skýrslunnar að hans sögn.

Davíð sagði einnig að sá sem ætti að setja saman siðareglur fyrir Sjálfstæðisflokkinn væri maðurinn sem ráðinn var framkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins af Jóni Ásgeiri, Hreiðari Sigurðssyni og Hannesi Smárasyni.

Vilhjálmur segist nú ekki taka þau ummæli inn á sig, hann sé í ágætis jafnvægi yfir þessu öllu saman. „Ég er bara ráðinn af framkvæmdarstjórn Samtaka atvinnulífsins. Ég man nú ekki hvort Hannes Smárason eða Jón Ásgeir hafi átt aðild að henni en Hreiðar var þar eitt sinn, en ekki þegar ég var ráðinn," segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir ummæli Davíðs hafa verið feilskot. Aðspurður hvort hann hafi átt von á þessu frá Davíð segir Vilhjálmur:

„Ekkert frekar en hvað annað. Mér fannst þetta hinsvegar tilefnislaust hjá honum."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×