Enski boltinn

Petrov á framtíð hjá City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martin Petrov og Grétar Rafn Steinsson berjast um boltann.
Martin Petrov og Grétar Rafn Steinsson berjast um boltann. Nordic Photos / AFP

Mark Hughes, stjóri Manchester City, segir að Búlgarinn Martin Petrov eigi sér framtíð hjá félaginu þó svo að hann hafi lítið fengið að spila að undanförnu.

Petrov hefur komið inn á sem varamaður í tveimur leikjum á tímabilinu til þessa, gegn Arsenal og Manchester United. Hann hefur þó aðeins fengið að spreyta sig í samtals 23 mínútur.

Hann var orðaður við Tottenham í sumar en ekkert varð úr því að hann færi þangað eftir að félagið keypti Nico Kranjcar frá Portsmouth.

„Martin spilar stórt hlutverk í því sem við erum að reyna að gera," sagði Hughes við enska fjölmiðla. „Hann hefur ekki verið neikvæður á neinn hátt vegna þessa og ég veit að ef ég vel hann í liðið mun hann leggja sig allan fram."

„Ástæðan fyrir því að Martin er ekki í byrjunarliðinu er sú að ég nota þá leikaðferð sem krefst þess að Craig Bellamy spilar á vinstri kantinum. Hann hefur verið frábær."

„Þetta hefur gert það að verkum að það er ekki auðvelt fyrir Martin að vinna sér sæti aftur í liðinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×