Enski boltinn

Ferguson ætlar ekki að stilla upp varaliði á móti Hull

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/GettyImages

Alex Ferguson, stjóri Manchester United, ætlar að leggja áherslu á að vinna lokaleikinn í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn á móti Hull. Leikurinn getur haft mikil áhrif á framtíð Hull í deildinni og það hefur verið reiknað með að Ferguson hvíli marga leikmenn fyrir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni á miðvikudaginn.

Ferguson segist ekki ætla að stilla upp einhverju varaliði í leiknum en útilokar þó ekki að einhverjir lykilmenn verði hvíldir fyrir átökin á móti Barcelona þremur dögum síðar.

„Þetta er búið að vera gott tímabil og við viljum ekki enda það á súrum nótum," sagði Ferguson. Manchester United tryggði sér enska meistaratitilinn þriðja árið í röð með því að ná stigi á móti Arsenal um síðustu helgi.

Ferguson segir að það sé mikilvægt trúveruleika deildarinnar að United stilli upp sterku liði í deildinni. „Við ætlum að skila okkar hlutverki í að viðhalda trúveruleika deildarinnar. Ég mun ætlast til þess að mitt lið vinni leikinn sama hvaða leikmönnum ég tefli fram," sagði Ferguson.

Þrír leikmenn verða örugglega í liðinu á móti Hull: Darren Fletcher, sem verður í banni á móti Barcelona, Rio Ferdinand, sem þarf nauðsynlega á leikæfingu að halda og Portúgalinn Nani.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×