Enski boltinn

Stuðningsmenn Chelsea völdu Lampard bestan í þriðja sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard hefur skorað 19 mörk fyrir Chelsea í vetur.
Frank Lampard hefur skorað 19 mörk fyrir Chelsea í vetur. Mynd/AFP

Frank Lampard hefur verið valinn besti leikmaður Chelsea á tímabilinu. Það eru stuðningsmenn félagsins sem kjósa en þetta er í þriðja sinn sem þeir verðlauna Lampard.

Lampard hefur skorað 19 mörk af miðjunni fyrir Chelsea á tímabilinu og alls 129 mörk fyrir félagið. Hann komst ekki í lið ársins í kosningu leikmanna og þótti mörgum það afar furðulegt.

Lampard slær nú við kunnum köppum sem allir höfðu verið kosnir tvisvar sinnum bestir hjá Chelsea. John Hollins, Ray Wilkins, Dennis Wise og Gianfranco Zola höfðu allir unnið þessi verðlaun tvisvar.

Leikmenn Chelsea kusu hinsvegar Ashley Cole bestan hjá Chelsea á tímabilinu.

Chelsea á eftir tvo leiki á tímabilinu, liðið mætir Sunderland í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn og síðan Everton í bikarúrslitaleiknum laugardaginn eftir rúma viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×