Enski boltinn

Ólátabelgirnir á Upton Park eiga yfir höfði sér lífstíðarbann

Ómar Þorgeirsson skrifar
Frank Nouble, leikmaður West Ham, reynir hér að stoppa ólátabelg á Upton Park í gærkvöld.
Frank Nouble, leikmaður West Ham, reynir hér að stoppa ólátabelg á Upton Park í gærkvöld. Nordic photos/Getty images

„Þessi hegðun verður ekki liðin. Þetta er forkastanlegt og við þurfum að rannsaka málið vel áður en hæfileg refsing verður tekin upp," segir Adrian Bevington, stjórnarmaður enska knattspyrnusambandsins, í samtali við Sky Sports fréttastofuna um ólæti innan vallar sem utan þegar erkifjendurnir West Ham og Millwall áttust við í 2. umferð enska deildarbikarsins.

Skipulögð slagsmál áttu sér stað fyrir utan Upton Park-leikvanginn áður en leikurinn hófst og þar var meðal annars einn maður stunginn með hnífi og eftir að leikurinn hófst ruddust sauðdrukknir ólátabelgir inn á leikvöllinn þannig að leikurinn tafðist um dágóða stund.

„Það var vitað fyrir leikinn að öryggismál þyrftu að vera í lagi og við þurfum að ganga úr skugga um að þau hafi verið það áður en við aðhöfumst eitthvað í málinu. Það er annars erfitt að skella sökinni á félögin því þau hafa eflaust gert allt sem í þeirra valdi stóð til þess að koma í veg fyrir ólæti.

Mikilvægast er að bera kennsl á þá einstaklinga sem urðu valdir af ólátunum og taka þá úr umferð og sjá til þess að þeir fái ekki aðgang á fleiri fótboltaleiki í framtíðinni," segir Bevington sem telur þó ekki að ólætin muni skaða möguleika Englands á að halda lokakeppni HM 2018 eins og stefnan er sett á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×