Enski boltinn

Ferguson skilur ekki heldur hvaðan uppbótartíminn kom

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United.
Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að hann skilji ekki heldur hvaða aðferðir dómarar nota til að ákveða hversu langur uppbótartími knattspyrnuleikja eigi að vera.

Michael Owen tryggði United 4-3 sigur á Manchester City á sjöttu mínútu uppbótartímans í leik liðanna um helgina. Áður höfðu dómarar gefið til kynna að uppbótartíminn væri að minnsta kosti fjórar mínútur en hann varð samtals tæpar sjö mínútur.

Mark Hughes, knattspyrnustjóri Manchester City, var afar óánægður með að leikurinn hafi fengið að ganga svona lengi og það skilur Ferguson vel.

„Ég er búinn að gefast upp á því að skilja hvernig dómarinn og fjórði dómarinn reikna út lengd uppbótartímans," sagði Ferguson í samtali við enska fjölmiðla. „En ég er viss um að þeir hafa sínar aðferðir."

„Ég skil vel að Mark Hughes skuli vera pirraður enda fékk hans lið mark á sig mjög seint í leiknum. En City var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en við fórum illa með þá í þeim síðari."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×